Er Samfylkingin klofin?

Spenna innan Samfylkingar

Eftir: Jóhann Hauksson

Ljóst er að vaxandi ólgu gætir innan Samfylkingarinnar. Aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um að kvótakerfið brjóti gegn jafnræðisreglu 26. greinar sáttmála um borgaraleg og pólitísk réttindi er orsök spennunnar innan flokksins. Margir flokksmenn líta svo á að með úrskurðinum hafi andstæðingar kvótakerfisins í núverandi mynd fengið besta tækifæri til breytinga sem nokkru sinni muni reka á fjörurnar og því þurfi stjórnvöld að bregðast hratt og örugglega við.

Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að það boði ekki gott að ríkisstjórnin skuli ekki enn hafa brugðist við niðurstöðu mannréttindanefndarinnar. Þetta kom fram í ávarpi hans á fjölsóttri ráðstefnu Samfylkingarinnar á Grand hóteli í Reykjavík síðastliðinn laugardag, en hann var þar meðal frummælenda. Þorvaldur sagði að með einhverjum hætti yrðu stjórnvöld að viðurkenna brot sitt, annað yrði sæmdarmissir fyrir íslensku þjóðina. Hann gat þess að upprunaleg úthlutun kvótans fyrir aldarfjórðungi væri ígildi opinberra styrkja.


Kvótakaupendur líka brotaþolar
Karl V. Matthíasson, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis, sagði að málið væri í höndum ríkisstjórnarinnar og kvaðst vona að hún skilaði áliti í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar SÞ. Honum þótti ekki tímabært að lýsa yfir stuðningi við þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar um tafarlaus viðbrögð við úrskurði mannréttindanefndarinnar en sú tillaga hefur ekki enn verið tekin á dagskrá Alþingis.

Aðalheiður Ámundadóttir, laganemi við Háskólann á Akureyri, sagði að sá misskilningur væri ríkjandi innan Landssambands íslenskra útvegsmanna að útvegsmenn ættu annarra hagsmuna að gæta en sjómenn.  Hið sanna væri að allir útgerðarmenn, sem nú þegar hafi neyðst til að kaupa kvóta dýrum dómum, væru einnig fórnarlömb mannréttindabrota. Hún benti jafnframt á að mannréttindasáttmálar væru eign almennings en ekki ríkisstjórna og væru vörn borgaranna gegn yfirgangi þeirra. Þannig hefðu stjórnvöld ekkert val um að hlíta niðurstöðu mannréttindanefndarinnar. Þau hefðu veitt mannréttindanefndinni umboð sitt og heitið að hlíta úrskurðum hennar.


Kjölturakki pólitíkusa
Lúðvík Kaaber, lögfræðingur og flytjandi máls sjómannanna tveggja sem skutu máli sínu til mannréttindanefndar SÞ, var einnig meðal frummælenda. Hann gagnrýndi Hæstarétt harðlega og kallaði hann varðhund og kjölturakka stjórnmálamanna og vísaði í því sambandi til Vatneyrarmálsins svonefnda þegar rétturinn sakfelldi sjómenn sem farið höfðu á sjó án veiðileyfis fyrir réttum átta árum. Lúðvík sagði að kvótakerfið hefði frá upphafi verið lögleysa og svo væri enn. 

Jóhann Ársælsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, útskýrði svonefnda fyrningarleið til að afnema eignarkvóta á tuttugu árum. Hann taldi að þannig mætti gera róttækar breytingar án þess að afnema aflamarkskerfið í sjálfu sér.


Ólga innan Samfylkingarinnar
Nú eru aðeins 5o dagar eftir af þeim 180 daga fresti sem mannréttindanefndin veitti íslenskum stjórnvöldum til þess að bregðast við úrskurðinum. DV hefur heimildir fyrir því að allnokkrir sjómenn undirbúi að fara í róður um miðjan júní þegar fresturinn rennur út, jafnvel óháð niðurstöðu ríkisstjórnarinnar í málinu.
Viðmælandi úr forystu Samfylkingarinnar sagði að líta mætti á fundinn á laugardag sem eins konar uppreisnarfund. Margir flokksmenn teldu að ekkert væri aðhafst í málinu af hálfu forystunnar og málið væri í gíslingu Sjálfstæðisflokksins og Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra sem legði sig allan fram – með sérfræðingum sínum - um að gera sem minnst.  Annar úr forystu flokksins taldi þó að unnið væri í málinu af heilindum og ríkisstjórnin kæmist ekki hjá því að bregðast við úrskurði mannréttindanefndarinnar með einhverjum hætti. Frétt á dv.is

 

Nú verðu að spyrja, er Samfylkingin klofin í mannréttindamálum? Ef ekki hvað er það þá sem hindra Samfylkinguna í því að standa upp og bregðast við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna á viðeigandi hátt um kvótakerfið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Víðir Benediktsson

þetta er ekkert flóki. það eru sumir í samfylkingunni sem eiga allt sitt undir Sjálfsstæðiflokknum og tala í samræmi við það. Samfylkingin launar ofeldið með undirgefni. Hef nú rendar ekki enn séð þann ágæta flokk standa á sannfæringu sinni síðan hann komst í ríkisstjórn. Heitustu kosningamálin eru varla til umræðu.

Víðir Benediktsson, 24.4.2008 kl. 10:03

2 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Mikið rétt Víðir, það er fátt til umræðu hjá Samfylkingunni, í það minnsta ekki samstaða um mikilvæg mál svo sem eins og þessi færsla fjallar um. Hvað varð um þessa frægu samræðupólitík hjá Samfylkingunni?

Hallgrímur Guðmundsson, 24.4.2008 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband