lau. 3.1.2009
Alveg er þetta makalaus vitleysa
Hver um annan þveran grenja þeir verkalýðsforkólfarnir einnig bæjar og sveitastjórar landsins um hvað stjórnvöld séu gjörsneydd öllum skilningi um að byggja upp atvinnu á landsbyggðinni.
Það væri of langt mál að telja það upp hvað þessum mönnum hefur dottið til hugar að grenja út af, til dæmis dettur Aðalsteini Baldurssyni fátt annað í hug þessa dagana en Álver á Bakka svo eitthvað sé tiltekið.
Ekki minnist ég þess að neinum af þessum snillingum hafi hugkvæmst það að krefja stjórnvöld um að þau virði úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna um kvótakerfið og byggðunum verði skilað aftur því sem þær byggðust upp á.
Ef einhver er ekki alveg með á nótunum um hvað ég er að tala þá er ég að tala um það að byggðunum verði skilað þeim sjálfsagða rétti sínum til þess að nýta auðlindina sem er við bæjardyrnar hjá þeim. Þannig urðu sjávarþorpin til og ekki á neinn annan hátt en að sækja sjóinn.
Með áræðni manna við að sækja sjóinn urðu svo til sprotafyrirtæki í landi sem byggðust upp á þjónustu við sjávarútveginn og íbúa sjávarbyggðanna. Hafi einhver haldið í alvörunni að þetta hafi gerst á einhvern annan hátt er sá hinn sami á hroðalegum villigötum.
28. mars á síðasta ári skrifaði ég um þetta sjá hér, jafnframt sendi ég þetta á alla héraðsfréttamiðla landsins sem og stóru fréttamiðlana, flestir birtu þetta en að sjálfsögðu henti mogginn þessu í ruslið sem og fréttablaðið, á einhvern áskiljanlegan hátt þá tóku fyrrnefndir aðilar (bæjar og sveitastjórnir ásamt verkalýðsforkólfum) þátt í því með stjórnvöldum að gera sitt besta til að kæfa umræðuna niður. Ég kalla það meðvirkni og beina þátttöku í mannréttindabrotum.
Aðalsteinn Baldursson hlýtur að horfa með hryllingi yfir Húsavíkurhöfn og hafnarsvæði Húsavíkur, þar nemur augað lítt annað en eymd og auð miða við það sem áður var. Já ég segi og kalla það fullum fetum meðvirkni að berjast ekki af meiri hörku fyrir þessu réttlætismáli. Ekki hefur verkalýðsforustunni að ég viti dottið til hugar að krefjast þess að mannréttindi séu fyrir alla en ekki bara þröngan forréttindahóp útvaldra gæðinga. Þá er ég að tala um þetta mál sérstaklega.
Þetta land byggðist ekki upp með hlutabréfum og álverum það er alveg á hreinu.
Svo kaldhæðnislegt sem það má nú vera að þá er nákvæmlega það sem ég skrifaði um fyrir næstum ári síðan að rætast og það svakalegasta í þessu öllu er að menn eru steinsofandi enn þann dag í dag um þessi mál.
Þetta heitir á mínu tungumáli að fljóta steinsofandi að feigðarósi með hroðalegum afleiðingum.
Ég skal alveg viðurkenna það að það var harður dómur og svolítið klaufalegt í þessa færslu að skrifa þannig að Aðalsteinn einn bæri ábyrgð á ástandinu og hef ég lagfært það, ég hefði mátt orða þetta meira almennt og beina þessu jafnframt meira á alla kollega hans sem og bæjar og sveitastjórnir landsins eins og upphaflegu skrif mín um þetta mál er.
Auðvita hringdi Aðalsteinn í mig og var svolítið ósáttur við þessi skrif mín, það er gott mál og áttum við fínt spjall saman, hann kom sínum sjónarmiðum að og ég útskýrði fyrir honum hvað ég ætti raunverulega við. Með þessum orðum var ég meira að vekja athygli á því hvað lítið hefur farið fyrir því að framvarðarsveitir fólksins á landsbyggðinni hafa haldið þessu á lofti frekar en rakka niður ákveðna persónu.
Auðvitað er það vonlaust fyrir mig að vita nákvæmlega hvað Aðalsteinn hefur sagt og gert í gegnum árin frekar en hann viti hvað ég hef sagt og gert í gegnum tíðina. Ég vil nota þetta tækifæri til að biðja Aðalstein afsökunar á því að hafa í upphafi beint þessu að honum einum.
Við skulum vona að raddir þessara manna sem ég er að tala um fari að hljóma hærra um þetta mál sem er lykilinn að lífvænlegum byggðum á landsbyggðinni.
Góðar stundir.
Ósáttur við forgangsröðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:12 | Facebook
Athugasemdir
Það voru ekki stjórnvöld sem slógu þessum álversframkvæmdum á Bakka á frest heldur Alcoa. Þannig að Aðalsteinn æti frekar að djöflast í þeim. Hinu er ég alveg sammála hjá þér þetta heilaga kvótadæmi er ótrúlegt og raunar furðulegt að stjórnvöld skuli komast upp að gera ekki neitt þrátt fyrir úrskurð mannréttindadómstólsins. Nóga andskotans undirlægju sýna þau gagnvart Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.
Haraldur Bjarnason, 3.1.2009 kl. 16:33
Ég þekki þetta ekki nægilega vel en auðvitað á að djöflast í þeim sem hættu við, en hafa stjórnvöld ekki gengið fram með allskonar fyrirslátt, dylgjum og gott ef ekki lygi í þessu máli.
Já svo sannarlega mætti heyrast hærra um úrskurð manréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna um kvótakerfið frá verkalýðshreyfingunni í heild sinni.
Hallgrímur Guðmundsson, 3.1.2009 kl. 18:22
Aðalsteinn eins og svo margir aðrir er búinn að gleyma hvað hefur haldið í honum lífinu. Ekki þar fyrir að það væri bara fínt að fá eitt stk. álver á Bakka.
Víðir Benediktsson, 3.1.2009 kl. 18:40
Sammála Víðir þessi umræða mætti að ósekju fá meiri athygli og hverjir eru það sem eiga helst að halda henni á lofti?
Eitt stk. Álver væri alveg ágætt enda er ég ekki að segja annað, en eyða öllu púðrinu í það á meðan flotinn sem var á Húsavík er seldur í burtu er ekki alveg nógu gott. Hann tekur á því núna trúi ég enda sagður dugnaðarforkur strákurinn.
Hallgrímur Guðmundsson, 3.1.2009 kl. 20:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.