Nú hafa rúmlega 200 þúsund einstaklingar heimsótt

þessa síðu og færslurnar eru rétt tæplega ellefu hundruð. 10 Apríl á síðasta ári byrjaði ég með þessa síðu og það er ekki úr vegi að setja hlekk á fyrstu færsluna, það kemur kannski ekki á óvart um hvað hún fjallaði en hana má lesa hér. Það er ótrúlegt að skoða þetta á þennan hátt. Að ég þessi hlédrægi og feimni strákur hafi náð þeim áfanga í lífinu að henda mér út í djúpu laugina og byrja að tjá mig opinberlega.

Margt áhugavert er að finna á þessari síðu og margt sem er náttúrulega tóm steypa og grín eins og er hjá flestum sem halda úti svona síðum. Það sem hefur gefið mér hvað mesta ánægju við þetta eru þeir vinir sem ég hef eignast á þessum tíma. Eins og gefur að skilja eru þetta mjög mismunandi einstaklingar staddir á ólíkum stöðum í þjóðfélaginu, en eitt eiga þeir allir það sameiginlegt að vera einstaklega skemmtilegir, jákvæðir og opinskáir.

Ég tel það forréttindi að hafa fengið þetta tækifæri að kynnast ykkur kæru vinir, samheldnin er svo ótrúleg sem ég hefði aldrei trúað því að það gæti gerst með þessum hætti án þessa að upplifa það sjálfur. Á þessum tíma hef ég einungis þurft að loka á einn einstakling, sem er ótrúlega lítið miða við þann fjölda sem hér hefur komið við.

Þótt ég sjálfur hafi byrjað með sorakjaft og skítkast í allar áttir þá hafa umræður og skoðanaskipti á síðunni að mestu farið mjög kurteisilega fram og þakka ég fyrir það. Eitthvað hefur síðuritari lagað málfarið og vil ég kalla það ákveðið þroskaferli í tjáningarsamskiptum við annað fólk.

Ég neita því ekki að stundum á ég það til að missa mig og bregða fyrir mig tungumálinu góða sem ég er alinn upp við og kallast á fagmáli, óhefluð Íslenska að hætti sjóara. Það er svo sem á vissan hátt afar eðlilegt þar sem ég hef verið á sjó frá fjórtán ára aldri og eiginlega aldrei komist í takt við það sem ég kalla stundum, kvenlega snyrt tungumál og notast eingöngu á stórhátíðum.

Ég þakka ykkur öllum fyrir innlitin og athugasemdirnar. Hlustum að lokum á tónlist sem fær mig til að setjast auðmjúklega niður og kela krúttlega við mína ekta frú. Henni verður boðið á tónleika Frostrósa þegar þær koma til Akureyrar.

Góðar stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband