Allir út að mála og ekkert röfl

Nú er sérlega heppilegt að mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar séu klárar án vankvæða, í það minnsta þykist ríkisstjórnin vera búin að búa svo um hnútana að enginn þurfi að óttast neitt. Tillögur Össurar um að allir geti farið að mála skúra hver fyrir annan og ýmis önnur hugðarefni sem dottið hafa upp úr næturbloggaranum hljóta að vera fyrir alla, annað væri mismunun.

Ég sé þetta þannig fyrir mér að þeir sem eru að missa vinnuna núna skipti um vinnugalla og drífi sig í málningarvinnu fyrir vini og vandamenn. Aldeilis óvíst er með skúrana sem hið opinbera á og Össur sagði okkur á landsbyggðinni að mála og halda síðan kjafti þegar fólkið út á landi missti vinnuna í hundruðum, ég geri einfaldlega ráð fyrir því að þeir séu allir nýmálaðir.

Þið fyrirgefið mér vonandi, ég bara verð að benda á þetta. Á þennan frábæra kost var okkur á landsbyggðinni bent á þegar við vorum svipt atvinnunni og sitjum eftir skuldsett upp fyrir haus í verðlausum eignum, fangar frjálshyggjunnar sem mistókst svakalega með tilraunarkerfinu sem sumir vilja kalla besta kerfi í heimi og ber það skelfilega nafn kvótakerfið, við horfum jú á þetta með jafn sljóum augum og okkur hefur verið sýnt í gegnum árin.

Ekki hefur okkur verið boðin sérstök áfallahjálp á meðan græðgi og einkavinavæðing frjálshyggjunnar hefur farið rænandi öllu sem hægt er að ræna og einhver verðmæti eru í um landsbyggðina á undanförnum árum. Nei þá vorum við bara landsbyggðarpakk sem alltaf eru grenjandi og ekkert sem getur gert okkur hamingjusöm.

Það mætti segja sem svo að Íslendingar hafi verið sem tvær þjóðir á meðan þetta hefur gengið yfir og landsbyggðin tækluð með þvílíkum viðbjóði og valdníðslu að vandfundið er samlíking í hinum siðmenntaða heimi. Eigum allt í einu núna að standa saman sem ein heild og hugga hvert annað?

Ég fer fram á afsökunarbeiðni áður en ég fer að kenna í brjóst um þá sem missa vinnuna núna. Ég var sviptur minni vinnu sem ég hef stunda frá 14 ára aldri og það fannst öllum það bara allt í lagi, ég mátti fara að mála kofaskrifli, éta malbik og naga girðingarstaura eða steinhalda kjafti ella. Á nákvæmlega sama hátt og með mig og fleiri þá á fólkið engan þátt í því að það stendur uppi atvinnulaust nú, upp með brosið penslar og málningarbakkarnir eru á góðu verði í Húsasmiðjunni ef hún er þá ennþá til, þetta er ekki heimsendir, tækifærin gætu leynst handan við hornið, til dæmis riðguð bárujárnsplata sem er ómáluð, hver veit?

Verið góð hvert við annað.

Góðar stundir.

Ps. Sýnið kurteisi og háttvísi á þessari síðu takk.


mbl.is Bankamenn í tilfinningarússi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Mér finnst það nú ekki nein huggun Halli minn, þó einhverjir bankastarfsmenn og aðrir í þjónustugreinum tapi sinni vinnu, þrátt fyrir að þeir hafi á köflum sýnt lítin skilning á hörmungum fólks á landsbyggðinni. Auðvitað vitum við báðir, að margir úr þessum greinum töluðu óvarlega um hörmungarnar sem gengið hafa yfir þá sem þjást undir kvótakerfi Framsóknar og andskotans, en við erum öll í sömu körfunni og verðum að sýna hvert öðru skilning.....og samstöðu...

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 10.10.2008 kl. 18:51

2 Smámynd: Víðir Benediktsson

Hinir hæfustu muna lifa af segir frjálshyggjan. Ef þú ert alvöru frjálshyggjumaður kemst þú á ríkisspena.

Víðir Benediktsson, 10.10.2008 kl. 19:38

3 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Mér er engin huggun í því Hafsteinn ég er ekki að meina það í þessari grein. Ég er einungis að benda á þá leiðu staðreynd að landsbyggðin hefur mátt sæta afgangi eins og hvert annað rusl á undanförnum árum.

Hélt fólk í alvörunni að það væri gjaldeyrisskapandi að keyra nógu oft niður Laugaveginn eða prenta haug af A4 blöðum með ægilega fínum nöfnum á sem öll áttu það sameiginlegt að byrjunin á skeinipappírnum var Hlutabréf í ????????????????

Það á fjöldi fólks um sárt að binda eftir glæfraför frjálshyggjunnar sem átti að mig minnir að setja okkur framar öðrum þjóðum á mettíma en fékk svo duglega brotlendingu að leitun er að öðru eins á sögulegum tímum. Við eigum að halda utan um þá sem eru okkur kærastir, það segir ekkert um það í Biblíunni að ekki megi benda á það sem okkur var ætlað hlýtur að vera nógu gott fyrir aðra, ekki satt? Þetta er ekki illa meint svo það sé á hreinu.

Páfinn afneitar trúnni áður en ég kem til með teljast alvöru frjálshyggjusvín nagandi jötuna á kostnað almennings Víðir.

Hallgrímur Guðmundsson, 10.10.2008 kl. 22:01

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þeir einu sem eru öruggir núna eru þeir sem taka upp hanskann fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér á þessum vettvangi. Þeir munu lfa af.

Vonlaust með okkur Hallgrímur.

Árni Gunnarsson, 10.10.2008 kl. 23:26

5 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Það er smá möguleiki að ég segi eitthvað pínulítið jákvætt um frjálshyggju helvítis ef þeir innkalla allar aflaheimildir og gefið verður upp á nýtt eftir reglum sem mismuna ekki og níðist á mannréttindum okkar.

Fyrr nei ekki að ræða það.

Hallgrímur Guðmundsson, 11.10.2008 kl. 07:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband