sun. 31.8.2008
Á vef fiskistofu má sjá
hver aflamarksstaða fiskveiðiársins er sem lýkur á miðnætti í kvöld sjá hér. Ef skoðað er hvað mikið af aflaheimildum er ónotað kemur í ljós að það brennur helvítis hellingur inni í þorskígildum talið. Í aflamarkinu eru ónotuð 22.576 þorskígildi. Höfum það í huga að þetta er nánast jafn mikið og HB Grandi fær í úthlutun en það eru 22.700 þorskígildi.
Í krókakerfinu eru ónotuð 3.050 þorskígildi. Samtals eru þetta 25.626 þorskígildi. Hver skyldi vera ástæðan fyrir því að svona mikið magn brennur inni og verður þjóðfélaginu ekki til neins gagns? Eina sem þetta skilar eru afborganir og vextir sem bankarnir taka til sín, því einsog flestir vita þá eru úthlutaðar aflaheimildir að megninu til yfirveðsettar og þeir einu sem hafa sitt eru lánastofnanir, en það á eftir að breytast til hins verra trúi ég, afskriftir í kvótavöndlunum eru óhjákvæmilegar áður en langt um líður.
Þótt þessar tölur liggi fyrir svona þá á væntanlega eitthvað eftir að koma inn af lönduðum afla og fimleikarnir í tegundatilfærslum eftir að einhverju leiti. Hvað sem það á svo skylt við fiskverndun þessir fimleikar við tegundartilfærslur er svo efni í margar bækur. Hvernig til dæmis Ufsi sem er að brenna inni getur orðið að þorski, ýsu og steinbít er svo galið að mig skortir orð. Ég sem hélt að það væri búið að lita nóg af fiski á fiskveiðiárinu, en nei þá er í boði á lokahnykk fiskveiðiársins að fullkomna verkið með ólögum.
Það virðist vera alveg sama hvað er rætt og um hvað í sjávarútvegi, talið beinist alltaf að bönkunum og hvað þeir eru slæmir að lána ekki eins og mönnum þóknast til að ljúga sig áfram í blekkingarvef eigin heimsku. Menn skæla mismikið einsog gerist og gengur í flestum greinum þjóðfélagsins en þegar Formaður samtaka útgerðarmanna lýsa því yfir hvað allir séu lamaðir yfir trega bankanna, meira að segja hann er jafn undrandi og smábarn sem sleikjóinn var hrifsaður af, þá er fokið í flestar ef ekki allar holurnar og ólyktin ein eftir, sjá hér.
Illa er ég hræddur um að brotlendingin verði hörð, óvægi já ef ekki bara komi algjörlega á óvart þeim sem halda áfram að afneita því að þetta gengur hreint alls ekki upp eins og reynt er í dag. Hvernig sem menn tala og fegra hlutina með hjali um hvað þetta sé allt saman hagkvæmt, arðbært, sjálfbært og Guð má vita hvað frasar eru notaðir, þá eru staðreyndirnar einfaldlega þær að skuldir sjávarútvegsins hafa aukist um 350% á tíu árum þó umsetningin sé nánast sú sama. Þarf að hafa fleiri orð um þetta?
Góðar stundir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.