Rétt skal vera rétt.

Vísir, 15. jún. 2008 15:22

Sjóstangveiðifyrirtækin hafa klárlega skrúfað upp verðið á leigukvóta

mynd
Hallgrímur Guðmundsson.
 

Hallgrímur Guðmundsson, formaður í Framtíð, samtökum sjálfstæðra í sjávarútvegi, segir það bull að fyrirtækið Hvíldarklettur hafi aðeins keypt um 1300 kíló á því verði sem nú er í gangi á kvótaleigumarkaði. Í Fréttablaðinu í dag er viðtal við Elías Guðmundsson, sem rekur sjóstangaveiðifyrirtækið Hvíldarklett. Trillusjómenn hafa haldið því fram að sjóstangaveiðifyrirtækin hafi sprengt upp verðið á kvótaleigumarkaðinum en Elías segir það staðlausa stafi enda hafi hafnn aðeins keypt rúmt tonn. „Þetta er bara bull," segir Hallgrímur hins vegar og vísar í upplýsingar á heimasíðu Fiskistofu.

„Þar sést svart á hvítu að Hvíldarklettur hefur keypt 44 tonn af þorski, 1,6 tonn af ýsu, 6 tonn af ufsa og 2,7 tonn af steinbít." Hann segir því alveg klárt að fyrirtækin hafi sprengt upp verðið á markaði. „Þeir rukka 20 þúsund krónur á bát fyrir daginn og síðan mega þeir fénýta aflan. Þannig að í raun eru þeir búnir að ná inn fyrir kostnaði á kvótaleigunni áður en haldið er úr höfn," segir Hallgrímur og bætir við að fyrirtækið hafi einnig fengið úthlutað byggðakvóta. „Það er bara augljóst að þeir skrúfa verðið upp. Þegar framboð er lítið eru þeir í þeirri stöðu að vera búnir að taka við pöntunum og jafnvel greiðslum í ferðir og því verða þeir að ná í leigukvóta, sama hvað það kostar."

Hallgrímur bendir einnig á að annað fyritæki, Sumarbyggð hf. í Súðavík geri einnig út hóp báta sem einnig flokkast undir þessar svo kölluðu frístundaveiðar. „Þetta fyritæki hefur leigt til sín 70 tonn af þorski, 8 tonn af steinbít og slatta af öðrum tegundum," segir hann.

Sjómenn hafa einnig gert athugasemdir við að sjóstangaveiðimennirnir sem hingað koma séu réttindalausir. Elías svarar því til í Fréttablaðinu að allir sjóstangaveiðimenn þurfi að hafa alþjóðlegt siglingaleyfi. Hallgrímur gefur lítið fyrir slíkt leyfi og segir það á engan hátt vera gilt til að taka þátt í atvinnusjómennsku, sem sjóstangaveiðin sé þegar hún er stunduð eins og tíðkast hjá Hvíldarkletti og Sumarbyggð hf.

„Til þess að geta stundað atvinnusjómennsku þarf maður að hafa skipstjórnarréttindi, vélavarðarréttindi auk þess sem maður þarf að hafa lokið námi í Slysavarnaskóla sjómanna," segir Hallgrímur. „Að flagga þessu alþjóðlega siglingaleyfi er álíka gáfulegt og að fara að vinna við köfun með sportkafaraleyfi upp á vasann og taka fullt gjald fyrir," segir hann.

„Nú er það ekki svo að við séum á móti þessum atvinnuvegi, öll atvinna og nýsköpun er eitthvað sem er algjörlega nauðsynleg í okkar þjóðfélagi," segir Hallgrímur. „Við erum á móti því að þessi atvinnuvegur sé kvótasettur og keppi þar af leiðandi beint við atvinnusjómenn um kvótann undir nafninu frístundaveiðar. Á þetta var bent á sínum tíma fyrir vægast sagt daufum eyrum ráðamanna."

Að lokum bendir Hallgrímur á að það hefði mátt standa að þessum málum á allt annan hátt.

Góðar stundir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband