Og enn syrtir í álinn hjá Hafró

Hver man ekki eftir þessum fréttum? Og fjölmargar aðrar fréttir berast nánast daglega af mokveiði á miðunum, erum við þá svona helvíti klárir að finna síðustu þorskana? 

Bátarnir sem róa frá Arnarstapa hafa verið að mokfiska að undanförnu. Einu sinni sem oftar kom Þorskur í kös netabáturinn Bárður með fullfermi um helgina, rúmlega tíu tonn, og þurfti að landa tvisvar sama daginn.

Pétur Pétursson skipstjóri á Bárði er því enn í sömu vandræðum og þegar Skessuhorn ræddi við hann fyrir mánuði síðan, að það gengur hratt á kvótann í góðu fiskiríi. Hjá Pétri eins og fleirum er glíman við að veiða ekki allan þorskinn áður en kemur að því að veiða aukategundirnar.

Handfærabátarnir hafa verið að koma með upp í tonn yfir daginn, sem þykir dágott.

Reimar Karlsson hafnarvörður á Arnarstapa miðar fiskiríið nú við það sem gerðist fyrir 6-8 árum þegar 40 tonnum var landað yfir daginn af um 30 bátum.

Arnarstapi Síðustu dagana hefur bátum verið að fjölga í höfninni á Arnarstapa, en það er alltaf í kringum sumardaginn fyrsta sem bátarnir koma á sumarvertíðina. Núna eru komnir að sögn Reimars rúmlega 15 bátar, eða svipað því sem verið hefur síðustu sumur.

Reimar segir að vel hafi verið að veiðast bæði í netin og á handfærin. "Ég veit ekki hvað er að gerast, en það virðist vera nóg af þorski. Kannski þetta sé eins og 1967 þegar síldin mokveiddist en svo sást hún ekki aftur fyrr en einum 40 árum síðar að hún fór að veiðast hjá okkur aftur. Allavega held ég að þetta séu ekki síðustu þorskarnir sem þeir eru að veiða núna," segir Reimar.

Fjölmargar aðrar fréttir um mokveiði hafa borist á þessari vertíð og Hafró finnur ekki ugga í sínu heimasmíðaða móteli (togararalli) Máttur vísindanna er að stórskaða þetta þjóðfélag. Helsta verkefni sem framundan er að mínu mati er að rannsaka starfsaðferðir Hafró.

Síðan gerðust hlutir sem komu ekkert á óvart, sandsílisstofninn sem átti að vera hruninn kom úr felum sjá hér. Sandsili. Ef einhverjir muna eitt ár aftur í tímann þá á þetta hreint ekki að geta átt sér stað. Fyrir ári síðan var allt vaðandi vitlaust í fréttaflutningi af algjöru hruni á sandsílisstofninum. Ekki dró vísindaflóran neitt úr og boðaði hörmungarnar sem aldrei fyrr.

Fuglafræðingar gengu af göflunum og boðuðu friðun á öllu sem Lundi hefði vængi, fiskifræðingar misstu þvagið og boðuðu friðun á fiski sem aldrei fyrr. Svo bara kom sílið og lét engan vita hvert það fór, þvílík ósvífni og óþægð í þessu helvítis síli að vera ekki þar sem vísindaakademían vil að það sé. Og meira en það, Sandsílisstofninn sem var jú hruninn tók upp á því að hrygna og það svona líka hressilega. Svona er Ísland í dag.

Er enginn farinn að efast um aðferðarfræðina hjá Hafró? Í mínum huga er alveg ljóst að mikið vantar upp á að vísindaakademían sé í einhverjum takti við raunveruleikann.

Hver trúir því að stofn eins og þorskstofninn  sé ekki stærri en svo að hann komist fyrir í einu horni Reykjavíkur hafnar, á sama tíma og mokveiði er nánast hringinn í kringum landið? Ég undirstrika það enn og aftur, það er eitthvað mikið að mótelinu hjá Hafró.

Góðar stundir. 


mbl.is Hrygningarstofn ætti að vaxa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Því miður Halli, þá held ég að verði engin breyting á vinnubrögðum HAFRÓ fyrr en þetta "fílabeinsturnalið", sem þar stjórnar og "ríður" húsum, verður "hreinsað" út og einhverjir sem eru í jarðsambandi og hlusta á mál annarra. taka við stjórninni og vonandi gera eitthvað af viti, sem væri nokkuð annað en hefur verið gert undanfarin ár.

Jóhann Elíasson, 5.6.2008 kl. 09:52

2 Smámynd: Atli Hermannsson.

Það er algerlega ljóst að þó við lokuðum Hafró og gerðum ekki neitt nema lesa afladagbækurnar og taka mið af þeim - þá væri það gæfuríkt framfaraskref. Maður veit bara ekki hvernig á að tækla þessa vitleysu sem engan endi ætlar að taka. Sem dæmi sagðist Björn Ævarr í gærkveldi vera vongóður um að við ættum eftir að ná þorskinum upp... en það væri langtímamarkmið... gæti tekið 5 - 10 - 15 ár. Það er spurning hvort ekki sé betra að halda áfram að veiða  200 þúsund tonn  um ókomin ár, frekar en að  binda sig við  130 þúsund tonn næstu 10 ár í von um að fá þá e.t.v. að veiða  220 þúsund tonn í tvo ár og svo aftur niður. 

Atli Hermannsson., 5.6.2008 kl. 22:46

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það á að reka bæði sjávarútvegsráðherrann og forstjóra Hafró.

Sigurgeir Jónsson, 7.6.2008 kl. 23:36

4 Smámynd: Víðir Benediktsson

þetta er bara óskiljanlegt, Hafró er bara Hafró og ekkert meira um það eð segja. Hins vegar eru pólitíkusarnir handónýtir, það var bara fyndið þegar samráðherrar Árna í ríkisstjórninni hrósuðu honum fyrir hugrekki í fyrra. Ég hefði hrósað honum fyrir heimsku.

Hafró er dýrasta apparat Íslandssögunnar, hún er búin að kosta okkur margar Sundabrautir, mörg hátæknisjúkrahús, margar tvöfaldar brýr á þjóðveginum, mörg Hvalfjarðargöng og meira og meira.

Svo er verið að bögga einn og einn heilsugæsluforstöðumann eða sýslumann  fyrir að fara nokkrar krónur yfir fjárlög, oft fólk sem hefur ekki átt annan kost í stöðunni nema þá bara loka. Hvenær verður farið að stjórna hér með skynsemi en ekki heimsku og hroka.

Víðir Benediktsson, 8.6.2008 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband