Það er við hæfi að hlusta á þetta meðan þið lesið þessa sögu.
Ég kom inn á það í síðustu færslu að ég myndi segja sögu mína um sjóslysið sem ég lenti í þá rétt að verða verða 15 ára gamall. Það tekur smá tíma að skrifa þessa sögu svo vel sé, einnig er erfitt að rifja þetta upp sem fólk kemur kannski til með að skilja þegar sagan verður birt. Ég ætla að segja eina sögu hér áður en ég sest niður og skrifa reynslusögu mína um þetta sjóslys. En þessi saga er af öðru slysi sem mótaði mig mikið og hafði gríðarleg áhrif á líf mitt.
Mörgu sinni hefur maður lent í aðstæðum eftir þetta sem ekki geta talist mannlegar á nokkur hátt, en til allra lukku hefur eitthvað vakað yfir mér sem haldið hefur yfir mér verndarhendi og skilað mér heim til fjölskyldu og vina minna. Mörg okkar lendum við í aðstæðum þar sem við fáum engu ráðið, náttúran tekur stundum völdin í sínar hendur og við horfum vanmáttug á skelfilega hluti gerast sem flest okkar halda að komi bara fyrir einhvern annan. Þetta sem við höldum að komi bara fyrir einhvern annan getur komið fyrir okkur sjálf, erum við einhvern tímann undir það búin? Þessu fékk ég að kynnast svo um munaði og mun ég seint ef þá nokkurn tíman gleyma því.
18. desember 1993 strandar Bergvík Ve í Vaðlavík á Austfjörðum áhöfninni var bjargað í land. Ég var skipstjóri á þessum bát, en fyrir þessa afdrifaríku sjóferð tók ég mér frí og fór heim til Eyja í jólafrí og kom eigandinn um borð og leysti mig af. Nokkrar tilraunir voru gerðar til að ná bátnum út fyrir áramót og mistókust þær allar. Eftir áramótin nánar tiltekið 9 janúar 1994 var hafist handa aftur og var dráttarbáturinn Goðinn fenginn í það verkefni að ná Bergvík á flot. Fyrstu aðgerðir um kvöldið og fram á nótt lofuðu góðu. Um nóttina var ákveðið að hætta aðgerðum og bíða eftir flóði sem yrði um hádegi daginn eftir. Veður fór versnandi og slakaði áhöfnin á Goðanum út öllum vír sem þeir höfðu um borð og færðu sig utar á víkina og héldu sjó.
Við sem vorum í landi höfðum samband við áhöfn Goðans og var allt í góðu lagi um borð hjá þeim. Eftir það förum við í bústað sem einn björgunarmannanna frá Eskifirði átti og fórum að sofa. Um kl hálf níu vöknum við í bústaðnum, það var komið snarvitlaust veður, við reyndum að kalla í Goðann með talstöð sem við höfðum, ekkert svar. Þá var reynt að hringja í þá og sama sagan ekkert svar. Þetta var óþægileg tilfinning, helltum við upp á kaffi í snatri og drifum okkur á stað niður í fjöru. Sjónin sem blasti við okkur þegar við komum niður í fjöru var svakaleg. Brak og drasl eins og hráviði um allt, maginn á mér fór í hnút, óttinn um hið hræðilega var staðreynd.
Við okkur blasti hræðilegi raunveruleiki, stórslys hafði gerst. Goðinn hafði farist, hann var í brimgarðinum miðjum um það bil 300 metra frá landi. Brakið úr honum var dreift um allt og björgunarbátarnir voru syðst í víkinni. Við skiptum með okkur verkum, menn fóru að athuga með björgunarbátana og leita inn eftir sandinum. Ég var eftir í fjörunni og fylgdist með, það voru menn um borð og fljótlega fóru þeir að tínast upp á stýrishús Goðans enda var að falla að og Goðinn fór hvað eftir annað á kaf í brimsköflunum.
Ég fylgdist með og taldi þá sem fóru upp á stýrishús, það vantaði einn. Um mig fór hrollur, hvar var hann, hvað gerðist? Vanmátturinn var algjör, veðrið versnaði og enn vantaði einn. Fjöruborðið var þakið braki úr Goðanum, ég gekk fram og aftur með fjörunni, milli þess sem ég fylgdist með Goðanum og vonaði að þessi eini sem vantaði skilaði sér upp á stýrishús, horfði ég leitandi í brakið sem velktist um í fjöruborðinu. Þá gerðist það sem ég óttaðist mest, það kom mikil fylla inn og þurfti ég að hörfa lengra upp í fjöruna svo aldan tæki mig ekki með, þegar aldan fór út aftur lá maður við hliðina á mér.
Ég greip strax undir handarkrikana á honum og kom okkur lengra upp í fjöruna. Þetta var ekki auðvelt verk, fyrir það fyrsta hugsaði ég um að gera þetta á þann hátt að félagar hans um borð í Goðanum yrðu ekki varir við þetta. Ég fékk nett sjokk ég var þarna staddur í vík austur á fjörðum í snarvitlausu veðri með vin minn í fanginu. Ég reyndi mig máttlausan við að koma lífi í hann, en þótt það væri hverjum ljóst að það væri vonlaust hélt ég áfram, vanmátturinn, reiðin og sjálfsásökunin voru öllu yfirsterkari, hann skyldi lifa. Hefði þetta gerst ef ég hefði ekki tekið frí? Hvað átti ég að segja við konuna hans? Margar spurningar flugu um hugann. Ég hélt áfram, guð minn góður hvað ég reyndi mikið, en allt kom fyrir ekki Geiri vinur minn var dáinn. Ég grét, ég barði í sandinn, reiðiöskrin hefðu ein átt að duga til að lífga hann við, en allt kom fyrir ekki hann var farinn. Ungur maður í blóma lífsins hafði kvatt þetta líf. Þetta var góður vinur minn sem ég kynntist svo vel á árum mínum í Stýrimannaskólanum í eyjum, hann kláraði skólann tveimur árum á undan mér.
Hinum var svo bjargað af þyrlusveit hersins á síðustu stundu, þeir hefðu ekki lifað um borð við þessar aðstæður mikið lengur enda voru þeir búnir að hanga bundnir við skorsteininn aftast á stýrishúsi Goðans frá því snemma um morguninn og það var að koma kvöld. Um þetta björgunarafrek má lesa í bók Óttars Sveinssonar Útkall Íslenska Neyðarlínan. Þar segir einnig frá æsilegri flugferð sem ég lenti í með þeim úr Vaðlavík og þangað til við lentum á planinu fyrir framan Kaupfélagið á Neskaupstað með tvo úr áhöfn Goðans sem voru vægast sagt illa á sig komnir.
Athugasemdir
Það er erfitt að setja sig í sporin Halli, en það er örugglega hörmulegt að lenda í svona aðstæðum. Ég var svo ljónheppinn alla mína skipstjóratíð að lenda aldrei í neinum alvarlegum uppákomum, ekkert stærra en skrámur eða hruflur.
Þó varð einusinni slys hjá okkur þegar Gísli Jonsson var með Guðfinnu (gömlu Engeyna) á netaveiðum vestur á Hrygg seint um haust. Þetta var haustið eftir að byggt var yfir bátinn og Gísli var aldrei í vafa um að hún hefði ekki komið úr kafinu án yfirbyggingarinnar. Það tók semsé út mann í brotinu sem reið yfir bátinn en þeir náðu honum á alveg ótrúlegan hátt um borð aftur og þegar þeir loksins komust með hann inná Patró, neitaði piltur að fara í land. (vildi ekki missa af siglingunni til Bremerhaven)
En það er mikil gæfa að hafa aldrei þurft að missa mann eða skip.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 25.3.2008 kl. 09:52
Sæll Hafstein, Þetta var svakalega erfitt, þarna voru aðstæður sem við réðum ekkert við. Það er satt félagi það er mikil gæfa að hafa aldrei lent í því að missa mann eða skip sem skipstjóri. Sú gæfa hefur fylgt mér ennþá og vonandi verður svo áfram.
Hallgrímur Guðmundsson, 25.3.2008 kl. 12:00
Þetta er áhrifarík saga. Mikill harmur að missa vin á þennan hátt.
Sif Traustadóttir, 25.3.2008 kl. 21:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.