mið. 9.1.2008
ÍSLENSK NEYSLUSVÍN
Lesning sem endurspeglar síðustu færslu.
Hvenær ætla Íslendingar að taka manngildi fram yfir verðgildi? Hvenær fer það að skipta meira máli að vera heiðarlegur og kurteis, en að vera með há laun, eiga nýjan jeppa og gullsleginn gosbrunn? Eða jafnvel þyrlu til einkanota eins og útgerðarmaðurinn í Vestmannaeyjum. Neyslufíknin er öllu yfirsterkari og við metum hvort annað eftir veraldlegum gæðum.
Það er staðreynd, rétt eins og sú nöturlega staðreynd að við erum fordómafull og dónaleg, þótt við viljum ekki viðurkenna það. Við erum hrokafull svín, tölum digurbarkalega og gerum okkur breið þegar ekkert er á bak við lúxusinn nema velvild bankanna. Við hverja eiga þessar lýsingar? Það hlakkar í sumum að vita til þess að fylliríið er bráðum búið.
Hannes Smárason, Útgerðarmaðurinn í Vestmanneyjum, Kristinn Björnsson og vafalaust margir fleiri eru sagðir klókir viðskiptamenn og drengir góðir. Þeir hafa hingað til verið í þotuliðinu en eru líklega þeir fyrstu sem sendir eru til jarðar. Það eru þeim vafalaust þung spor og mikið áfall að missa sæti sitt á fyrsta farrými. Nauðbeygðir til að troða tappanum í kampavínsflöskuna. Það er þó örugglega bara hægðarleikur miða við það sem fram undan er hjá þeim sem tókst að troða sér með í þotuna á síðustu stundu.
Fyrsta refsing er að borga fyrir kampavínið sem veitt er frítt á fyrsta farrými,síðan eru þeir reknir eins og dauðvona hundar aftur í á almennt farrými með mér og hinum meðalskussunum, hríðskjálfandi starandi tómum augum út í loftið og bíða stóradómsins. Meðan ég og hinir meðalskussarnir njótum ferðarinnar og drekkum okkar Egils Appelsín.
Verst er þó að hugsa til ofdekraðra barna þeirra, sem alist hafa upp við alsnægtir og innistæðulaust ríkidæmi. Þeirra barna og unglinga sem hafa fengið allt, fyrirhafnalaust upp í hendurnar. Unglinga sem hafa aldrei þurft að dýfa hendi í kalt vatn öðruvísi en öskra, þetta er kalt og þetta geri ég aldrei aftur. Þau hafa komið oftar til Los Angeles en Akureyrar og fengu glænýjan bíl á 17 ára afmælisdeginum. Íslensku Paris Hilton börnin, börnin sem kostuð eru áfram endalaust í skólum til þess eins að þau verði eins klók í viðskiptum og gott fólk sem þeir telja sig vera.
Þessu unga fólki er mest vorkunn. Þau munu brátt átta sig á því að lífið snýst um annað og meira en að fá rándýra merkjavöru að gjöf bara fyrir það eitt að vakna og vera til. Það verður þungur biti að selja bílinn og versla í lágvöruverslunum, og ganga í 990 kr gallabuxum úr Rúmfatalagernum. Niðurlægingin sem sagt algjör að þurfa skyndilega að lifa í sömu veröld og við hinir meðalskussarnir.
Mikil verðlækkun á hlutabréfum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.