Rakalaus og órökstuddur þvættingur.

 " Grein úr mogganum í morgun"

Byggðakvóti er tímaskekkja

Friðbjörn Orri Ketilsson skrifar um sjávarútvegsmál

Friðbjörn Orri Ketilsson
Friðbjörn Orri Ketilsson
Friðbjörn Orri Ketilsson skrifar um sjávarútvegsmál: "Byggðakvóti er af mörgum talinn jákvæður fyrir minni sjávarþorp en þegar betur er að gáð kemur í ljós að svo er alls ekki."

UNDANFARIÐ hefur verið rætt nokkuð um byggðakvóta og hafa stjórnmálamenn mætt útgerðarmönnum í sjónvarpssal til rökræðna um þetta fyrirbæri. Áhrif byggðakvóta, þar sem aflahlutdeildum er úthlutað af hinu opinbera til mismunandi byggða virðast í fyrstu vera jákvæð en þegar betur er að gáð kemur annar og alvarlegri sannleikur í ljós.

Við úthlutun er miðað við að viðkomandi byggð sé ekki stærri en sem nemur 1.500 íbúum sem veldur því að mörg þorp hafa beina hagsmuni af því að vera áfram lítil og laða ekki að sér fólk af ótta við að fara yfir tilgreindan íbúafjölda. Aðrar byggðir sem eru rétt við mörkin hafa hvata til þess að fækka íbúum sínum til að komast undir þau mörk sem byggðakvóti miðast við.

 

Kvóti kemur ekki í byggðir

Þær byggðir sem byggja mikið á byggðakvóta frá sjávarútvegsráðherra hafa til þess hvata að bægja frá sér kvóta sem er í eigu útgerðarmanna þar sem hætta er á að byggðakvóti fari þegar almennur kvóti eykst í byggðinni. Mörg dæmi eru um að íbúar í smærri þorpum á landsbyggðinni hafi beðið útgerðarmenn þar í bæ að skrá skip sín á aðrar hafnir til að auka möguleika sína á að fá úthlutað byggðakvóta.

Byggðakvótinn virkar því með þeim hætti að veiðiheimildir eru fluttar frá þorpi á Austurlandi til þorps á Norðurlandi. Litlu virðist skipta stjórnmálamenn að á Austurlandi missir fólk vinnu sína um leið og störf skapast á þeim stað sem heimildirnar eru færðar til. Mun eðlilegra væri að í sjávarútvegi, líkt og í öðrum atvinnugreinum, fengju veiðiheimildir, tæki, fólk og annað í atvinnulífinu að leita þangað sem verðmætin nýtast best líkt og verið hefur á Íslandi frá því landið var numið.

 

Skammtað úr hnefa

Það er fortíðarblær yfir því að ráðherra opni árlega pyngju sína og dreifi verðmætum til þess fjölda sem hafði fyrir því að mæta í biðstofuna það árið. Á öðrum sviðum er það liðin tíð stjórnmálamenn hafi slíkt vald yfir atvinnutækjunum. Löngu er viðurkennt að pólitísk afskipti sem þessi auka líkur á spillingu og skekkja alla eðlilega atvinnustarfsemi á frjálsum markaði.

Landsbyggðin þarf frelsi í sjávarútvegsmálum til jafns við aðrar atvinnugreinar í landinu. Óeðlilegt er af ríkisvaldinu að fella niður störf í sjávarútvegi á einu svæði til þess eins að skapa þau á öðrum og færa þau jafnvel aftur til baka árið eftir. Byggðakvóti er tímaskekkja sem leggja þarf niður sem allra fyrst – landsbyggðarinnar vegna.

Höfundur er formaður félags ungs fólks í sjávarútvegi, www.fufs.is

Ég tek hluta úr greininn stækka letrið og lita það. Höfundinum að þessari grein ber skylda til að koma með sannanir fyrir máli sínu. Að henda svona fullyrðingum fram lýsir því betur en nokkuð annað fyrir hvað þessi félagskapur sem hann kennir sig við stendur fyrir. Er ekki staðreynd málsins einföld, að þarna eru á ferðinni nokkrir erfðarprinsar af sukkinu og viðbjóðnum sem viðgengst í Íslenskum sjávarútvegi?

Ég held að maðurinn ætti að kynna sér úthlutunarreglurnar á byggðarkvóta áður en hann byrjar að tjá sig um þau mál. Hver bað um það að hætt var að úthluta byggðarkvóta til fiskvinnslunnar og farið var að úthluta honum til útgerðanna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þetta er "kvótakrakki" (kvótaerfingi) sem aldrei hefur dýft hendi í kalt vatn á ævinni (mamma hans blandaði vatnið fyrir hann þegar hann þvoði sér um hendurnar áður en hann borðaði) og skrif hans og siðgæði bera þess vott.

Jóhann Elíasson, 30.11.2007 kl. 20:01

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ekki þekki ég nákvæm deili á þessu fyrirbæri, en ég veit að þetta fyrirbæri er búið að vera duglegt við að  titla sig formann hinna og þessara samtaka, tengd sjávarútvegi, en svo þegar þessi samtök hafa verið skoðuð þá hafa þau ekki fundist, en þetta krakkakvikindi er víst til þetta hefur starfað víða og er líka haldið þörf á að láta taka eftir sér og hefur tekið þátt í mörgum "málfundafélögum" og álíka kjaftaklúbbum en nálægt sjó hefur þetta aldrei komið en ef ætti að staðsetja þetta einhvers staðar þá væri þetta líklega á hillu með Hannesi Hólmsteini og hans líkum.  Annars er þetta fyrirbæri  með heimsíðu á netinu http://www.fridbjornorri.is/ og má sennilega nálgast upplýsingar um fyrirbærið þar.

Jóhann Elíasson, 1.12.2007 kl. 08:25

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Fór að lesa síðuna þína eftir að ég sá góða athugasemd um boxið í nótt. Og ég get ekki annað en tekið undir gagnrýni þína á greinina að ofan, einkum þá hugsanavillu að tengja ekki kvótann við vinnsluna frekar en útgerðina. Það er lykilatriði, ekki svo mikið sem er til skiptanna af byggðakvóta hvort sem er.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 9.12.2007 kl. 17:08

4 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Takk fyrir mig Anna, ef byggðarkvótanum væri úthlutað til fisvinnslunnar væri það nokkuð tryggt að hann nýttist fólkinu í byggðarlögunum. Ekki eins og nú er sem leiðir af sér brask með byggðarkvótann eins og dæmið Hér sannar. Síðan er Hér ágætis lesning um þvæluna sem er í gangi.

Kv, Halli.

Hallgrímur Guðmundsson, 9.12.2007 kl. 18:41

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Þessi tvö beinhörðu dæmi eru mjög athyglisverð og ég þarf greinilega að fylgjast með síðunni þinni áfram, þetta mál brennur ansi heitt á manni.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 9.12.2007 kl. 21:10

6 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Þetta er samt bara smávægilegt innsýn í það sem er og hefur verið í gangi. En með svona mál er það bara staðreynd að þegar maður fer að hreifa við þeim og vekja á þeim athygli verður maður fyrir frekar grófum aðfinnslum frá ótrúlegustu mönnum. Kerfið er varið með ótrúlegum Nasista vinnubrögðum og eru ekki til nein landamæri í þeim vinnubrögðum. Ég er frekar forvitinn, tengist þú sjávarútveginum og þá hvernig?

Hallgrímur Guðmundsson, 9.12.2007 kl. 21:21

7 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mín tenging er aðallega frá því að ég var að skipta mér af pólitík fyrir allmörgum árum, einmitt þegar verið var að koma á breytingum á kvótakerfinu og setja frjálsa framsalið á kvóta inn í þeirri mynd sem hefur verið meira og minna síðan. Sjávarútvegsmálin voru frá fyrstu tíð aðaláhugamálið mitt, eflaust spilar inní að ég átti pabba á Seyðisfirði þegar ég var krakki og var það flest sumur. Hef aldrei efast um að ef fiskveiðikerfið væri þannig byggt upp að fiski væri skilað til vinnslu og þannig að það stuðlaði ekki að brottkasti, þá væri flestum byggðum hér á landi borgið.

Svo hef ég verið að stúdera sögu Álftaness og Sandgerðis, hér á Álftanesi hrundi byggðin úr 600 manns í 200 á 20 árum um 1900 vegna vondrar fiskveiðistjórnunar og það þarf ekki að fjölyrða um Sandgerði í nútímanum.

Mér svíður líka hvað reynt er að gera lítið úr gildi fiskveiða og fiskvinnslu í seinni tíð í umræðunni í þjóðfélaginu.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 9.12.2007 kl. 21:33

8 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Takk fyrir svörin Anna. Það er nokkuð kaldhæðnislegt hvernig þetta er orðið. Þegar ég byrjaði á sjó í Jan 1977 þá á fimmtánda ári voru sjómenn taldir hetjur hafsins, meðal annars var það ástæða þess að ég byrjaði á sjó, þetta voru karlarnir sem maður leit upp til. Það er sennilega ekki til nein stétt í þessu landi sem fórnað hefur eins miklu og sjómenn, bæði með lífi sínu og limum í baráttunni fyrir bættum lífsgæðum til handa sér og þjóð sinni. Fiskverkunarfólk var heldur ekki talið til annars flokks þjóðfélagsþegna. Í dag eru sjómenn álitnir stórglæpamenn sem þarf að fylgjast með allan sólahringinn og fólk í fiskvinnslu er álitið ómenntað hyski sem helst enginn vil vita af. Með öðrum orðum, margir hafa gjörsamlega gleymt uppruna sínum. Við eigum einfaldlega til of mikið af ofmenntuðum ( notum mín orð ) fíflum. Menntun er góð ef hún er rétt notuð. En eitthvað vantar mikið upp á það hjá ansi mörgum að þeir kunni að nota sér menntunina sem þeir hafa til góðra verka.

Hallgrímur Guðmundsson, 9.12.2007 kl. 22:07

9 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mjög sammála því sem þú ert að segja og þess vegna finnst mér svo gott að komast í vitrænar umræður um þetta höfuðmál þjóðarinnar. Því miður hafa fræðingarnir, sem margir eru vel menntaðir og áreiðanlega trúa því að þeir séu velviljaðir, talað allt of oft niður til okkar hinna, bæði sjómanna og fiskvinnslufólks, sem býr yfir mestri sérfræðiþekkingunni að mínu mati með mikilli reynslu, og líka til okkar hinna sem viljum fylgjast sem best með. Eftir að hafa í 20-30 ár átt þetta sem sérstakt áhugamál, og kannski frá því ég var að skottast með pabba niðri í Fiskifélagi, áður en hann flutti á Seyðisfjörð, fimm ára gömul, þá vil ég umræðu en ekki að keyrt sé yfir okkur í krafti umdeilanlegra fræða. Sem betur fer eru líka til ,,fræðingar" sem hlusta á aðra og leita jafnvel eftir skoðunum þeirra, en því miður er líka til fræðahroki.
Eitt dæmi (og svo skal ég hætta ;-) er að ég þurfti að rífast lengi við fiskifræðinga sem héldu því fram að flatur niðurskurður á kvóta væri jafn góður og að afla upplýsinga um mismunandi veiðisvæði, ástand botns og lífríkis. Síðan eru ekki nema svona 15 ár! En fyrst og fremst hef ég trú á að beita megi byggðakvóta tengdum fiskvinnslunni sem fínu stýritæki.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 9.12.2007 kl. 23:13

10 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Ég er búinn að vera skipstjóri í næstum 20 ár og hef alveg fengið að kynnast hrokanum sem kemur frá til dæmis Hafró. Það væri efni í margar bækur ef maður tæki saman alla þvæluna sem hefur verið borin á borð fyrir mann. Margt af því svo vitlaust að maður er sagður spunameistari og frábært efni í skáldsagnahöfund þegar maður fer að segja frá. Oft er lítið annað hægt en vorkenna þessum fræðingum þegar þeir eru staðnir að því hvað eftir annað að kunna ekki einu sinni að lesa út úr eigin gögnum. Við skulum átta okkur á einu, fiskifræðin eru mjög ung, það er staðreynd að hún byggist upp á spádómum ekki heilögum vísindum eins og fræðingarnir vilja halda fram. Líffræðiþátturinn er í raun það eina sem hægt er að fara eftir. Menn verða að kunna að lesa út úr náttúrunni og blanda því síðan saman við sína menntun, þannig fæst nokkuð rétt mynd út úr því sem er að gerast. Síðan er það líka álita mál hvað við vitum í rauninni mikið, eins og þú sást í færslunni sem ég setti inn á síðuna hjá Frjálslyndum í Eyjafirði ná rannsóknir Hafró yfir fáránlega lítið svæði af landgrunninu, samt halda þeir því fram að þeir viti nokkuð upp á hár hvað er mikið af fiski í sjónum. Spár eru bara spár og þær klikka nokkuð reglulega samber veðurspár, hver þorir að halda því fram að þær standist nákvæmlega? Ég hef reynslu af allt öðru. Vandamálið í þessu öllu er að hlutirnir fást ekki ræddir á gagnrýninn hátt, Hafró stjórnar öllum umræðum, og kemst upp með að rakka þá niður sem ekki dansa með vitleysunni. Sammála þér með byggðarkvótann ég hef einhverstaðar á síðunni minni skrifað um þessi mál og hvernig ég tel best að hafa hann og er það á þessum nótum.

Hallgrímur Guðmundsson, 9.12.2007 kl. 23:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband