fös. 21.9.2007
Stjórn og óstjórn fiskveiða!
Ef við skoðum málin aðeins með bæði augun opin um ástand fiskistofna við Norður- Atlandshaf. Hvernig skyldi standa á því að Barentshafið sé það svæði þar sem ástand þorsksins er hvað í mestum blóma? Er það vegna þess að farið hefur verið eftir veiðiráðgjöf vísindanna í einu og öllu? Er það vegna þess að Rússar, Norðmenn og skip ESB stundi engar umframveiðar á ráðgjöfinni. Er það ekki staðreynd að Rússar veiða langt umfram ráðgjöf vísindanna? Er það ekki staðreynd að skip ESB landanna veiða langt umfram sínar heimildir? Halda menn virkilega að Norðmenn séu þeir einu sem fara í einu og öllu eftir ráðgjöf vísindanna?
Er það ekki staðreynd að vísindin boðuðu hrun þorskstofnsins í Barentshafi? Einungis örfáum árum síðar margfaldast stofninn að stærð sem kom vísindunum algjörlega í opna skjöldu. Þá sagði til dæmis forstjóri Norsku Hafrannsóknarstofnunarinnar að það væri alveg ljóst að fræðin sem unnið væri eftir væru handónýt og henda mætti þeim út um gluggann og byrja mætti upp á nýtt. Það þótti engum nein sérstök ástæða að hugsa um þessi orð forstjórans, nei málið var þagað í hel af vísindunum og eiga fjölmiðlar stóra sök áþví að vísindin voru ekki látin svara fyrir þessa yfirlýsingu forstjórans.
Er það ekki staðreynd að mjög stórir þorskstofnar gefa að sér lélega nýliðun? Hafa vísindin útskýrt hvernig samspilið er í raun og veru? Er það ekki staðreynd að það þarf að vera pláss fyrir nýja einstaklinga við matarborðið? Hvernig er komið fyrir þeim svæðum í Norður- Atlandshafi þar sem vísindin hafa tröllriðið öllu í verndunarátaki sínu? Er ekki komið að því að vísindin dragi hausinn upp úr sandinum og viðurkenni vanmátt sinn fyrir náttúrunni?
Að mínu mati er það aðeins eitt sem hægt er að kalla óstjórn í stjórn fiskveiða, það er ofstjórn.
Athugasemdir
Heill og sæll Hallgrímur, ertu ekki einum og neikvæður gagnvart okkar ágætu vísindamönnum, þeir eiga jú sínar jákvæðu hliðar líka.
kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 21.9.2007 kl. 09:58
Sæll Sigmar, ég get tæplega kallað þetta neikvæðni. Þetta eru staðreyndir sem ekki verður horft framhjá og er saga þessara mála því til sönnunar. Hvernig sem á því stendur geta vísindin haldið áfram að boða niðurskurð þegar það öskrar í andlitið á þeim að vöxtur þorsksins er í sögulegu lágmarki, sem sagt ætisskortur. Þetta kalla ég ekki vísindi. Hefur það einhvers staðar gengið eftir að svelta stofna til hlýðni? Við skulum einnig átta okkur á því að niðurstöðurnar eru fengnar með mjög svo vafasömum aðferðum og síðan er restin spá sem byggð er á niðurstöðunum. Jákvæðu hliðunum Simmi minn er því miður ekki gefið brautargengi það sem það gengur þvert á aðferðarfræðina sem notuð er.
kv . Halli
Hallgrímur Guðmundsson, 21.9.2007 kl. 10:41
Heill og sæll aftur Halli, það sem ég hef oft hugsað um sambandi við fiskveiðistjórnun er að við sjómenn höfum ekki verið mikið að pæla í friðun gegnum tíðina, við höfum alltaf veitt eins mikið og við getum og lítið pælt í því að friða okkar fiskstofna, nema þá fisk sem einhverjir aðrir en við erum að veiða. Gæti sagt margar sögur af því.
Ég hef á undanförnum 10 árum oft rætt þessi mál við skipstjóra togara, flestir af þeim hafa haft miklar áhyggjur af karfastofninum. Nú er líklega komið að skuldadögum karfastofnin er í lagmarki að þeirra sögn, og hvað segjum við þá, jú helvítis útlendingarnir/ sjóræningjaskip eru að ganga frá þessum karfastofni það verður að stoppa þá.
Þegar ég var á trolli á árunum 1960 til 1976 var opnun í venjulegu fiskitrolli 3 fet og var verið að reyna að opna þetta meira eða um einhverja sentimetra. Síðan kom troll sem opnaðist allt að 3 metra og nú í dag eru nýtísku skip með tvö troll aftan í sér líklega með margfalda þá opnun og með ofurvélar.
Þegar ég var í Stýrimannaskolanum 1970 þá var verið að búa til flottroll sem hafði opnun eins og fótboltavöllur. Um daginn hitti ég mann sem vinnur hjá Hampiðjuni og spurði hann hvort en væri til svona troll. Hann sagði mér að þessi troll sem voru búin til á þessum árum væru bara vasaklútar miðað við þau troll sem notuð væru í dag. Hvað eru þau stór ? spurði ég. Opnunin upp og niður eins og 7 Hallgrímskirkjuturnar og breydd eins og fjórir Hallgrímskirkjuturnar svaraði hann. Það er mín skoðun Halli að við getum eitt öllum fiskstofnum okkar ef við hugum ekki að friðun. Hvort fiskifræðingar hafi réttar aðferðir við að meta stofnstærðir veit ég ekkert um.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 21.9.2007 kl. 16:19
Ég hef skrifað um flottrollið og er alltaf jafn hissa að þetta verkfæri skuli vera leyft innan landhelginnar. Hér er Hlekkur inn á eina af þeim færslum. Hér er síðan annar Hlekkurum þetta mál. Þetta er ábyrgðarhlutur sem verður að taka á að mínu mati. Í Fiskifréttum í dag er viðtal við Þorstein Guðmundsson skipstjóra á Hvanney SF. Hann tekur þátt í netaralli Hafró og umsögn hans um þessa aðferðarfræði Hafró styður það sem ég hef alltaf haldið fram. Þessi aðferðarfræði er handónýt og stenst engan veginn. Sem styður það svo að útkoman og spár eru tóm steypa sem er ekki í nokkru samhengi við raunveruleikann.
Hallgrímur Guðmundsson, 21.9.2007 kl. 17:18
Heill og sæll en og aftur Hallgrímur, þetta er fróðleg lesing um flottrollið og þú átt heiður skilið að vekja umræðu um það. Sjálfur hef ég lent í deilum við LÍÚ og ég er sammála þér í því að það er með ólíkindum hvað þetta hagsmunafélag útgerðarmanna kemmst langt í sinni hagsmunagæslu.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 21.9.2007 kl. 18:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.