fös. 10.8.2007
Af hrygningarstofnum og nýliðun.
Í Fiskifréttum 18. mars 2005. birtist viðtal við Einar Hjörleifsson vegna fyrirlesturs sem hann hélt í málsstofu Hafró og nefndist "Af hrygningarstofnum og nýliðun" og fór m.a. yfir þessa þætti varðandi þorskstofninn við Færeyjar.
Ég hef túlkað gögn frá Færeyjum þannið að öfugt samband væri á milli hrygningarstofns og nýliðunar, þegar hrygningarstofn þorsks væri stór væri nýliðun lítil og öfugt. Þetta hef ég notað í ráðleggingum mínum til færeyskra stjórnvalda við stjórn fiskveiða 4 ár í röð og þau hafa farið eftir mínum ráðum, sem hafa gengið þvert á ráðgjöf færeysku Hafró og ICES.
Í fyrirlestri sínum segir Einar að slíkt samband sé ekki fyrir hendi og segir að ályktanir mínar séu rökleysa. Með þessu er hann að kasta rýrð á mína fagmennsku og gera mig ótrúverðugan.
Í viðtalinu var haft eftir honum að "í þorskstofninum við Færeyjar yfir nokkurra áratuga tímabil væri ekki hægt að sjá af þeim gögnum neitt beint samband milli hrygningarstofns og nýliðunar" en bætti við, "hugsanlega væri hægt að sjá ef hrygningarstofninn væri mjög stór að nýliðunin væri þá ekki mjög mikil".
Síðar í viðtalinu gagnrýnir Einar röksemdafærslu mína, þegar hann skýrir meint neikvætt samband hrygningarstofns og nýliðunar (takið eftir orðinu "meint"). Haft er orðrétt eftir Einari: ,,Hann (Jón Kristjánsson) leggur til grundvallar í útreikningum sínum alþjóðleg gögn sem ganga út frá því að náttúrulegur dauði sé fast hlutfall en ályktar síðan út frá niðurstöðum í útreikningum að náttúrulegur dauði sé mjög breytilegur. Þetta er náttúrulega algjör rökleysa".
Skemmst er frá því að segja að ég hef aldrei notað slíka röksemdafærslu til að skýra umrætt samband enda finnur Einar þessum orðum sínum ekki stað. Þess ber einnig að geta að Einar hefur aldrei spurt mig um neitt varðandi færeyska þorskstofninn og hann hefur ekki kynnt mér þá gagnrýni sem hann hefur viðhaft um mína túlkun á þorskgögnum frá Færeyjum.
Hér er aðeins rúm fyrir stutta greinargerð um hið "meinta" samband sem er til umfjöllunar en nákvæma túlkun mína á færeysku þorskgögnunum er að finna á: www.fiski.com/fcodstrec.html og www.fiski.com/skrar/sveiflur.html
Mynd 1 er úr síðustu vinnuskýrslu ICES um Færeyjaþorsk en hún sýnir hrygningarstofn og nýliðun í tímaröð frá 1961. Ekki þarf að rýna lengi í myndina til að sjá að yfirleitt eru þessir þættir í mótfasa: Þegar hrygningarstofninn er stór er nýliðun lítil og öfugt.
Mynd 1. Sýnir þróun hrygningarstofns (SSB) og nýliðunar (R) í tíma. Hér virðist vera öfugt samband: Þegar hrygningarstofninn er stór er nýliðun lítil og öfugt. En Einar segir að hér sé ekkert samhengi.
Til þess að draga betur fram taktinn í gögnunum og draga úr truflunum hef ég skoðað frávik frá meðaltali. Þá er 3 ára meðaltal látið sveiflast í kring um 9 ára meðaltal, þetta er sýnt á mynd 2.
Mynd 2. Hrygningarstofn og nýliðun eru í mótfasa eins og reyndar sást strax á fyrstu mynd.
Sjaldgæft að sjá svona skýrt samhengi í líffræðilegum gögnum. Engu að síður hafa þeir sem mestu ráða um fiskveiðiráðgjöf í Norðurhöfum valið að hundsa þetta. Allt virðist gert til að tortryggja mína túlkun, enda kippir hún fótunum undan hinni hefðbundnu fiskveiðiráðgjöf, sem m.a. felst í að friða fisk til að reyna að "byggja upp" hrygningarstofna.
Heimildir:http://www.fiski.com/
Athugasemdir
Mjög góð upprifjun...
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 10.8.2007 kl. 12:36
Takk fyrir það félagi. Það er því miður stór hluti þjóðarinnar, sem hefur ekki glóru um þvæluna sem hefur verið í kringum þetta svo kallaða
besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi
kv. Halli
Hallgrímur Guðmundsson, 10.8.2007 kl. 16:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.