fim. 14.1.2010
Jóhann Hauksson er góður penni.
Það á enginn neitt inni hjá kappanum, ekki einu sinni Friðrik J. Arngrímsson sem hótar samborgurum sínum með sameiginlegri eign þjóðarinnar.
Sjáum hér fyrir neðan hvernig þetta er tæklað.
HAGSMUNAEINBLÍNI SÆGREIFANNA
Jóhann Hauksson
Nú hótar Landssamband íslenskra útvegsmanna að sigla flotanum í land ef Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra úthlutar þeim ekki skötusel inn í séreignaraflahlutdeildarkvótakerfi sitt.
Hótunin um að sigla í land kom fram hjá Friðriki J. Arngrímssyni í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hann er maðurinn sem Jón Baldvin Hannibalsson kallaði launaðan starfsmann harðsnúnasta sérhagsmunagæsluliðsins í landinu í útvarpsþættinum Sprengisandi um síðustu helgi. Sérhagsmunaliðsins sem væri búið að fara svo illa að ráði sínu að það skuldaði nú þrefaldar árstekjur alls sjávarútvegsins.
Þeir hafa sem sagt í hótunum við þjóðina.
Þeir hafa líka haft í hótunum við sveitarstjórnarmenn í sjávarplássum ef þeir skrifuðu ekki undir áskorun gegn áformum ríkisstjórnarinnar innköllun aflaheimilda til ríkisins í samræmi við fyrningarleiðina.
Þeir sitja í fjölmennri nefnd á vegum sjávarútvegsráðherra sem hefur það verkefni að endurskoða kvótakerfið. Fulltrúar LÍÚ voru í þvílíkri fýlu út í sjávarútvegsráðherra að þeir mættu ekki á fundina um hríð. Ástæðan var að sjávarútvegsráðherra ætlaði að taka slatta af skötuselskvóta og leigja á markaði í stað þess að úthluta honum beint til kvótagreifanna.
Helmingur sjávarútvegsfyrirtækja er gjaldþrota eða því sem næst. Það er hryggilegt.
Drjúgur hluti kvótans er á forræði bankanna, sem nú eru í meirihlutaeign erlendra kröfuhafa, banka í Þýskalandi og bandarískra vogunarsjóða. Lög kveða á um að þessir kröfuhafar verða að losa sig við kvótann á innlendum markaði ef til þess kemur.
Erlendu kröfuhafarnir gætu líka ákveðið að halda kvótanum en leigja hann út. Væru þeir þá að brjóta lög?
Varla. Og sennilega myndi verð á kvóta lækka verulega við slíkar aðstæður.
Ég mæli með því að erlendir kröfuhafar geri einmitt þetta, leigi útgerðarmönnum hér á landi kvótann sem þeir ráða yfir. Sennilega er það góð leið til tiltektar í kvótakerfinu og dregur áreiðanlega úr braski innan greinarinnar.
Við fáum þá að sjá hvort LÍU verður með jafn mikið harðlífi í garð kröfuhafanna og ríkisstjórnarinnar sem vill að kvótinn verði á forræði þjóðarinnar en útvegsmenn hafi nýtingarréttinn eftir sem áður.
Svo mörg voru þau orð.
Góðar stundir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Í morgun skýrði einn af gestum Útv.Sögu frá því að ríkið hefði nýlega leyst til sín útgerð og selt kvótann!
Svona er samþykkt landsfundar Samfylkingarinnar frá því í vor um fyrningu aflaheimilda hrundið í framkvæmd. Það er undarlegur félagsskapur sem lætur sér nægja að funda endalaust um deilumál og sitja hinir rólegustu þótt stefnuskrá flokksins sé hunsuð í réttri stafrófsröð.
Árni Gunnarsson, 14.1.2010 kl. 19:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.