sun. 8.3.2009
Við skulum vona að þeim verði ekki kalt
Hugljómun Björgvins ríður ekki við einteyming í vitleysunni, nú skal halað inn atkvæðum með bryggjurölti og bölsóttast út í kvótakerfið og hverslags ranglæti það er og hefur verið frá upphafi.
Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, átti í gær fund í Sandgerði með Ásmundi Jóhannssyni, sjósóknara, um kvótakerfið. Fóru þeir að lokum um borð í frægan bát Ásmundar sem nú er innsiglaður af yfirvöldum vegna sjósóknar Ásmundar utan kvóta.
"Fundurinn var mjög góður. Ég tel að eitt stærsta verkefni næstu ríkisstjórnar sé að vinda ofan af kvótakerfinu. Nú er til þess einstakt tækifæri. Við þurfum að festa eignahald þjóðarinnar á auðlindum í stjórnarskrá og innkalla gjafakvótann.
Málið snýst um mannréttindi og Ásmundur rakti með sannfærandi hætti á fundi okkar hvernig kvótakerfið er í upphafi byggt á lögleysu og mismunun.
Framsalið og leigan á kvótanum er eitt mesta ranglæti Íslandssögunnar. Við jafnaðarmenn verðum að standa okkur í þessu réttlætismáli og breyta þessu kerfi," segir Björgvin eftir fundinn með Ásmundi í Sandgerði í gær, já innköllum gjafakvótann...
Næstur til að stíga á stall er svo presturinn og manngæðingurinn Kalli Matt, standandi upp á fiskikörum vítt og breytt um Norðvesturkjördæmi horfandi dreymandi augum til hafs og blessa lýðinn með þeim orðum að eina vonin sé að byggðirnar fái notið auðlindanna sem eru við bæjardyrnar, með öðrum orðum innkalla gjafakvótann.
Í Norðausturkjördæmi er stórskáldið og sjónvarpsstjarnan Sigmundur Ernir eina von kjördæmisins um að krefjast þess að kvótinn verði innkallaður, spurning hvort hann notar sömu tækni og Kalli Matt. Það er að segja leggi líf og limi í stórhættu með karakröngli og þrumi nokkrar frumsamdar vísur yfir lýðinn um mikilvægi þess að kvótinn skuli innkallaður byggðunum til heilla.
Ekki er nokkur hætta á því að Siglufjarðarundri komi nálægt umræðunni um slor og salt, nei með verkamannahjálm á hausnum og einkadræver geysist Siglufjarðarundri um kjördæmið með eldgamlan boðskap um mikilvægi gjaldfrjálsra jarðgangna og útreikninga um svívirðilega oftöku ríkisins á olíu og bensíni í formi olíugjalds. Ég set reyndar spurningarmerki við þennan lið um oftöku ríkisins á orkugjöfunum, þetta hefur einfaldlega legið í höndunum á honum sjálfum að leiðrétta og svo merkilega sem það kann að hljóma þá hefur ekkert verið gert í þeim efnum.
Pjakkurinn frá Siglufirði er um margt hreint ólíkindatól, Vaðlaheiðargöng er farið að hljóma eins og enginn sér morgundagurinn og fortíðinni hafi verið eytt með einu pennastriki. Nú skal grafið til austurs úr Eyjafirði sem aldrei fyrr og aldeilis óvíst hvar stoppað verður að grafa, af nógu er að taka austan Eyjafjarðar um það geta flestir verið sammála.
Við skulum vona að þeim verði ekki kalt á þessu brölti sínu, í hreinskilni sagt þá væri mér svo nákvæmlega sama þótt þeir myndu þjáðst af naglakuli í smá tíma...
Eina sem ég get sagt þegar þessi veruleiki blasir við okkur, um mig fer kjánahrollur.
Góðar stundir.
Næsta skref að flytja norður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:25 | Facebook
Athugasemdir
Ég treysti þessu liði ekki fyrir horn en VG og S geta gert gagngerar breytingar á kerfinu einungis með því að gefa út reglugerð.
Það hafur ríkisstjórnin ekki gert.
Sigurjón Þórðarson, 8.3.2009 kl. 10:06
Já Halli, það er greinilegt að Samfylkingin ætlar að láta okkur sitja uppi með sama vonlausa liðið og nú á meira að segja að slá ryki í augu fólks, fram að kosningum, með því að ÞYKJAST vera á móti núverandi KVÓTAKERFI því þeir vita að um 80% þjóðarinnar er á móti þessum óskapnaði. En um leið og þetta lið hefur náð kosningu snýst það um 180 gráður og fylgja stefnu/stefnuleysi "slæðudrottningarinnar".
Jóhann Elíasson, 8.3.2009 kl. 10:15
Sunnanmaðurinn Sigmundur Ernir er nú ekki úr gamla liðinu Jói. Hann þykist ætla að flytja norður. Af hverju ekki austur? Austfirðingar eru á góðri leið með að tapa öllum sínum þingmönnum eftir stækkun kjördæmisins.
Haraldur Bjarnason, 8.3.2009 kl. 10:42
Er ekki Sigmundur Ernir frá Akureyri, er þá ekki eðlilegt að hann íhugi flutning til Akureyrar? Þó að það komi EINN nýr inn hjá Samfylkingunni finnst mér ekki hægt að tala um enurnýjun.
Jóhann Elíasson, 8.3.2009 kl. 11:22
Simmi flytur norður, (lögheimilið), sest svo á þing, og fær dreifbýlisstyrkinn greiddan út í hönd. Maðurinn verður nú að eiga fyrir salti í grautinn.
Simmi er að norðan, þar eru "gömlu" vinirnir til að kjósa hann, enda verður hann sennilega bara þingmaður fyrir Akureyringa, maðurinn er ef ég man rétt "opinber sendiherra Akureyrar í Reykjavík".
Hver er ekki á móti kvótasvindlinu (eins og þjóðin) svona korteri fyrir kosningar?
Hver vill ekki láta bora út og suður, korteri fyrir kosningar. Það er svo atvinnuskapandi (flytja inn verkamenn þeir Íslensku eru svo fjandi dýrir). Og verkalýðshreyfingin leggur blessun sína yfir allt sem þeir segja (enda bjóða þeir svo fjandi góðar tertur með kaffinu þessir vinnuveitendur).
Hvað áttu hlutföllin að vera milli erlendra verkamanna og Íslenskra við gerð Kárahnjúkastíflunnar. Var það ekki 80% Íslenskir á móti 20% erlendir, hver varð svo reyndin? Og hvað gerði verkalýðshreyfingin? ekkert enda uppteknir við að sleikja rjómann úr andlitinu eftir allt tertuátið með forstjórunum.
Var einhver að tala um lélegt minni?
Minntist einhver á kosningaloforð?
Talar einhver um svik við þjóðina?
Fiskinn í vinnslu heim í héruð strax, það er hægt með einu góðu pennastriki og skuldirnar verða eftir hjá þeim sem voru að kaupa þýfið, það stendur einhverstaðar á góðum stað að þjófurinn þrífist en þjófsnauturinn ekki.
Eigið svo góðan sunnudag...........það ætla ég að gera.
Sverrir Einarsson, 8.3.2009 kl. 11:39
Það eru ekki allir á eitt sáttir með stjörnufjölmiðlamanninn Sigmund skoðum málið aðeins.
Andrés Jónsson, almannatengill og fyrrverandi formaður ungra jafnaðarmanna, segir á bloggsíðunni sinni að bömmer gærdagsins hafi verið sú staðreynd að Sigmundur Ernir Rúnarsson hafi lent í öðru sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi.
Í færslunni segir Andrés, og telur næsta líklegt að Sigmundur komist á þing í komandi alþingiskosningum. „Bömmer dagsins: Froðusnakkurinn Sigmundur Ernir er á leið á þing fyrir Samfylkinguna. Var virkilega ekkert starf laust í Speglasalnum? Þetta er ekki nýtt fyrirbrigði.
Að kjósendur á landsbyggðinni séu með svo mikla minnimáttarkennd, að um leið og einhver 2. flokks stjarna úr höfuðborginni virðir þá viðlits, þá missa þeir kúlið og kikna í hnjánum...
Í fullri hreinskilni, þá líst mér alls ekki nógu vel á framtíðarþingflokk Samfylkingarinnar eins og hann lítur út núna.
Svo mörg voru þau orð.
Hallgrímur Guðmundsson, 8.3.2009 kl. 13:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.