lau. 25.10.2008
Er farið að syrta í álinn?
Eru menn loksins að vakna af svefninum góða og átta sig á því að þeir hafa hagað sér eins og algjör fífl? Verðmyndun á svokölluðum varanlegum aflaheimildum sem ég vil reyndar kalla gervieign hefur um árabil verið algjörlega úti á túni. Ekki veit ég hvað ég hef oft sagt það að veðsetningin og þessi arfagalna verðmyndun aflaheimilda geti ekki gengið og sá dagur muni koma að gjaldþrotin verði ekki umflúin.
Er það ekki frekar pínleg staða fyrir Arthur Boga formann LS og félaga hans Friðrik J. hjá Líú að liggja á hnjánum fyrir framan alþjóð betlandi um fyrirgreiðslu á ruglinu sem þeir hafa stutt svo duglega í gegnum árin? Verðmyndun á sameign þjóðarinnar á nefnilega ekkert skylt við framboð og eftirspurn, þarna á verðmyndunin sér alfarið uppruna hjá þeim sem um sameignina halda og hefur verið treyst fyrir henni. Með það traust hafa menn farið svo vægt sé til orða tekið hroðalega, niðurstaðan er einföld sjávarútvegurinn á vonarvöl vegna skuldsetningar. Væri þetta ekki einhversstaðar kallað að bregðast algjörlega því trausti sem mönnum er sýnt?
Einn höfðinginn bætti svo í hópinn fyrir hádegi og blessaði hlutina svo um munaði. Gvendur vinalausi mætti í viðtal hjá Birni Inga Hrafnssyni í þættinum Markaðurinn á Stöð 2. Það vafðist ekki fyrir þeim vinalausa að úttala sig um vel rekinn sjávarútveg og hvað dýrðin væri í rauninni mikil í þessu öllu saman. Þeir lesa sjálfsagt sömu yfirlýsinguna vinalausi Snæfellingurinn og Friðrik J. áður en þeir koma í viðtöl, í það minnsta er rullan sláandi lík sem þeir blaðra út úr sér.
Ekki klikkaði Björn Ingi á því frekar en aðrir fjölmiðlamenn sem ég fer fljótlega að líkja við meðvirka landráðamenn, ekki ein einasta gagnrýnin spurning á vinalausa Snæfellinginn um það hvernig í ósköpunum menn gætu haldið því fram að þetta sé svo vel rekið fyrst skuldsetningin er orðin svo hroðalega að sjávarútvegurinn er tæplega rekstrarhæfur.
Góðar stundir.
Sauðargærutogarar fari út fyrir 12 mílur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Fyrir nokkrum vikum var allt í þessu fína hjá bönkunum, allt gekk eins og í sögu. Þeir sem höðu efasemdir voru aumkunarverðir öfundarseggir. var það ekki Nixon sem sagði að eftir því sem fagurgalinn væri meiri, því meira væri að?
Víðir Benediktsson, 25.10.2008 kl. 16:35
Nú væla menn sem aldrei fyrr og byðja um hjálp við að skera sig úr snörunni sem þeir hnýttu svo duglega sjálfir. Það væri hræsni af þessum mönnum að halda því fram að þetta hafi ekki verið fyrirsjáanlegt.
Þeir sem leikið hafa sér með og blekkt bæði sjálfan sig og aðra með Excel vita nákvæmlega hvað þeir eru búnir að gera. Þann raunveruleika eru þeir að fá með öllu slorinu ósöltuðu þráðbeint í andlitið. Helvíti fúlt að þurfa að kyngja því en annað er ekki í boði og hefur reyndar aldrei verið, bara spurning um tíma sjáðu til.
Hallgrímur Guðmundsson, 25.10.2008 kl. 19:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.