mán. 26.5.2008
Það verður fróðlegt
að sjá hvernig stjórnvöld svara áliti mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna. Eru Íslensk stjórnvöld skuldbundin því að fara eftir nefndinni? Nei segja bæði Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún, Líú er líka með þetta á hreinu og fylgja Geir og Ingibjörgu að máli. Eða eigum við að segja Geir og Ingibjörg elta það sem Líú segir? Skoðum málið og þá kemur meðal annars þetta í ljós.
- Íslenska Ríkið er aðili að Alþjóðasamningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (1979 nr. 10, 28. ágúst) og hefir einnig fullgilt valfrjálsa bókun við samninginn, þar sem það viðurkennir lögsögu Mannréttindanefndarinnar til að fjalla um kærur frá einstaklingum út af meintum brotum á ákvæðum Alþjóðasamningsins ( 1. og 2. grein.). Íslenska Ríkið tók fullan þátt í málflutningi fyrir Mannréttindanefndinni í þessu kærumáli og tefldi þar fram öllum hugsanlegum rökum og málsástæðum til varnar.
2. Það er viðurkennd regla í lögfræði, að túlka beri samninga með hliðsjón af tilgangi þeirra. Tilgangur Íslenska Ríkisins með aðild að Alþjóðasamningnum og hinni valfrjálsu bókun við hann, verður ekki túlkaður á annan veg en þann, að ríkið skuldbindi sig til að fara eftir álitum Mannréttindanefndarinnar og fullnægja þeim.
3. Alþjóðasamningurinn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi hefir ekki lagagildi hér á landi. Það hafði Mannréttindasáttmáli Evrópu heldur ekki, þegar íslensku réttarfarslögunum var gerbreytt með aðskilnaði dómsvalds og umboðsvalds í héraði um árið 1990 eftir kæru Jóns Kristinssonar til Mannréttindanefndarinnar, þar sem réttarfarskerfið var talið brjóta í bága við 6. gr. sáttmálans um sanngjarna málsmeðferð. Þrátt fyrir það, að Mannréttindasáttmáli Evrópu hefði ekki lagagildi hér á landi á þessum tíma taldi Íslenska Ríkið sig skuldbundið samkvæmt honum að þjóðarétti og breytti réttarfarslögum sínum í samræmi við úrskurð Mannréttindanefndar Evrópu, svo sem fyrr segir. Hér er því um algerar hliðstæður að tefla. Sómakært vestrænt lýðræðisríki, eins og hið íslenska, verður að vera sjálfu sér samkvæmt í þessum efnum og getur ekki verið þekkt fyrir annað en að fara einnig eftir áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna í því máli, sem hér er til umræðu. Annað myndi flekka orðstír þjóðarinnar út á við og gera að engu möguleika hennar til að öðlast sæti í Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna. Ég tel Ísland því bæði bundið hér að þjóðarétti og einnig siðferðilega til þess að fullnægja álitinu.
4. Í þessu sambandi er og rétt að vekja athygli á því, sem meiri hluti Mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna hefir sjálfur um þetta að segja í áliti sínu: Þar sem aðildarríkið hefir viðurkennt lögsögu Mannréttindanefndarinnar til þess að skera úr um það, hvort brotið hafi verið gegn Alþjóðasamningnum eður ei, og aðildarríkið hefir skuldbundið sig til þess, samkvæmt 2. gr. samningsins, að tryggja öllum einstaklingum á yfirráðasvæði þess eða undir þess lögsögu þau réttindi, sem samningurinn hefir að geyma og sjá til þess, að þeir hafi skilvirk og aðfararhæf úrræði í þeim tilvikum, þar sem talið er að um brot hafi verið að ræða, þá óskar Mannréttindanefndin þess að fá, innan 180 daga, upplýsingar frá aðildarríkinu um þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til að fullnægja áliti nefndarinnar. Skoðun Mannréttindanefndarinnar í þessu efni fer því ekki á milli mála hér.
Góðar stundir.
Verið að vinna að svari til SÞ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.