Fréttablaðið 17. apríl 2008.
Frumvarp fjármálaráðherra um lífeyrissjóði fellur í grýttan jarðveg hjá verkalýðshreyfingunni, sem segir að með því verði eignir landsmanna í lífeyrissjóðum ofurseldar skortsölu. Framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða kannast ekki við að lífeyrissjóðir hafi beðið um lögin."Frumkvæði að þessari lagasetningu er ekki frá okkur komið," segir Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp sem heimilar lífeyrissjóðum að lána allt að 25 prósentum af hreinni eign sinni, í allt að ár í senn. Lánin þarf að tryggja og mega sjóðirnir taka við verðbréfum sem verslað er með á markaði sem tryggingu. Þessi viðskipti þurfi enn fremur að fara í gegnum kauphöll eða viðurkennda verðbréfamiðlun.Hrein eign lífeyrissjóðanna er nú ríflega 1.600 milljarðar króna, samkvæmt tölum Seðlabankans.
Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, leggst gegn þessum ákvæðum frumvarpsins og segir þau bjóða heim möguleika á skortsölu á eigum lífeyrissjóðanna, það er að menn hagnist á því að eignir lífeyrissjóðanna rýrni.Frumvarpið er nú til umræðu í efnahags- og skattanefnd Alþingis.
Hrafn Magnússon segir að lífeyrissjóðirnir mæli almennt ekki á móti frumvarpinu, enda sé fleira í því en þetta, en menn þurfi að stíga varlega til jarðar. "Við þekkjum ekki hver reynslan er af viðlíka fyrirkomulagi erlendis, en það má benda á að hægt er að fá nokkrar þóknunartekjur af svona lögðu."
Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, segir fulltrúum launþega lítast illa á frumvarpið. "Frumvarpið er lagt fram án samráðs við þá sem eiga lífeyrissjóðina," segir Gylfi og bendir á að lífeyrismál séu hluti kjarasamninga. "Það væri eitt, sem liður í sérstökum aðgerðum. að heimila lán á eigum lífeyrissjóða með ríkisábyrgð, en það er allt annað mál að leyfa þetta með veði í eignum sem skráðar eru á markaði.
Þetta er eign landsmanna og það er undarlegt að veita eigi heimild til þess að lána eitthvað sem aðrir eiga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.