sun. 10.2.2008
121 dagur til stefnu.
Í dag eru 59 dagar síðan stjórnvöld fengu í hendur úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um að brotin hefðu verið mannréttindi á tveimur íslenskum sjómönnum. Kvótakerfið væri ósanngjarnt og Íslendingar stæðu ekki jafnir frammi fyrir lögum; lögin vernduðu ekki alla jafnt eins og kveðið er á um í 26. grein mannréttindasáttmálans um borgaraleg og pólitísk réttindi. Í dag eru þar af leiðandi 121 dagur eftir af þeim fresti sem mannréttindanefndin gaf brotlegum íslenskum stjórnvöldum til að greiða sjómönnunum bætur og gera breytingar á kvótakerfinu. (Sjá meira neðar)
Auðunn Arnórsson, blaðamaður, tók ágætt viðtal í Fréttablaðinu 12. janúar sl. við Guðmund Alfreðsson prófessor í alþjóðalögum og fyrrverandi framkvæmdastjóra Raoul Wallenberg stofnunarinnar í Lundi. Fyrirsögnin var Mannréttindi til útflutnings. Guðmundur hafði verið meðal frummælenda á málþingi um mannréttindi í utanríkisstefnu Íslands á vegum Háskólans á Akureyri. Þar lýsti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir því yfir að mannréttindi væru forgangsmál utanríkisstefnu Íslands.
Þetta merkir að Íslensk stjórnvöld gætu látið til sín taka í samfélagi þjóðanna á sviði mannréttindamála; stuðlað að því að sem flestir virði mannréttindi í veröldinni. Þannig gætu Íslendingar hæglega haft einhvers konar afskipti af mannréttindabrotum í Súdan eða Gvatemala svo dæmi sé tekið.
En hugsum okkur að aðrar þjóðir setji sér sömu markmið og Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde; að láta gott af sér leiða í mannréttindamálum í veröldinni. Er ekki vísast að þessi ríki banki upp á hjá okkur og bendi á að hér séu brotin mannréttindi samkvæmt úrskurði mannréttindanefndar SÞ? Verða Geir og Ingibjörg Sólrún þá kindarleg á svipinn?
Athyglisvert er í áðurgreindu viðtali í Fréttablaðinu að Guðmundur Alfreðsson bendir á að í æ ríkari mæli séu mannréttindi nefnd í ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Getur Ingibjörg Sólrún með nokkurri sannfæringu sóst eftir sæti í öryggisráðinu meðan hún og Geir hafa ekki tekið til heima hjá sér?Og hvernig stendur á því að Einar K. Guðfinnsson er svona beyglaður vegna málsins? Veit hann ekki að það var ósanngirni kvótakerfisins sem knésetti endanlega fjölskylduveldi hans í Bolungarvík (EG hf) snemma á síðasta áratug? Meira að segja tvíhöfðanefndin, sem þá vann að endurskoðun kvótakerfisins, lagði til að hluti kvóta yrði bundinn byggðalögum. Öllu stungið ofan í skúffu af flokksbræðrum hans. Á þeim tíma sá Einar K. Guðfinnsson hlutina skýrt og gagnrýndi óspart ágalla kerfisins. Nú er hann þagnaður. Eins og lamb.
Einar K.: Klukkan tifar. 121 dagur er til stefnu.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.