mán. 22.10.2007
Ég vil vekja athygli á grein í Mogganum í dag.
Skoðanir Hafrannsóknastofnunar eru hvergi yfir gagnrýni hafnar
*Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS, ber miklar brigður á mat Hafró á stærð þorskstofnsins og framsetningu upplýsinga stofnunarinnar * Segir framsetninguna villandi og jafnvel ranga
ÖRN Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir útilokað að hægt sé að sætta sig við mat Hafrannsóknastofnunarinnar á stærð þorskstofnsins. Hann telur margt benda til þess að aflaráðgjöfin sé röng og eðlilegt að veiða allt að 220.
Á aðalfundi LS í lok síðustu viku fór Örn yfir nokkra þætti í ráðgjöfinni og fjallaði jafnframt um framsetningu Hafró á efni sínu. Helstu athugasemdir Arnar við forsendur ráðgjafarinnar eru í þremur meginþáttum eins og kom fram í erindi hans á fundinum:
Þyngdin vanmetin
"Meðalþyngdartölur fimm elstu árganganna eru vanmetnar. Útilokað er að 10 til 14 ára fiskur hafi meðalþyngd á bilinu 5,8 kg upp í 6,9 kg. Að 11 ára þorskur, sem hafði meðalþyngdina 10,8 kg 2004, mælist nú 6,9 kg. Tveimur árum fyrr gerðist hið gagnstæða að meðalþyngd 11 ára þorsks var 10,4 kg en hann var orðinn 18,1 kg fjórum árum síðar. Sveiflur sem þessar er illmögulegt að skilja öðruvísi en svo að mælingar og þar með tölur sem aflaráðgjöf Hafró er byggð á séu rangar.Útilokað er að sætta sig við það þegar sagt er að 40% ástæðunnar fyrir skerðingu séu vegna þess að fiskurinn sé að léttast, annað en sjávarútvegsráðherra skipi sérfróða aðila til að yfirfara gögnin, þar sem upplýst verði hvar fiskurinn var veiddur, í hvaða veiðarfæri og hver lengd hans var og þyngd, svo eitthvað sé nefnt.
Aðeins sex ár bera uppi meðaltalið
Nýliðun í langtímameðaltali, 179 milljónir fiska, sem spannar yfir hálfa öld, telur stofnunin viðunandi nýliðun. Við þetta langtímameðaltal er rétt að gera þá athugasemd að það eru aðeins sex ár sem bera uppi meðaltalið og öll eru þau í órafjarlægð; 1955, 1964, 1970, 1973, 1983 og 1984. Þegar árgangar þorsks á tímabilinu frá 1985 til og með 2003 eru skoðaðir er meðaltalsfjöldi nýliða á bakvið þá 131 milljón, og aðeins árið 1997 fer upp fyrir það meðaltal sem Hafrannsóknastofnunin telur viðunandi. Nýliðun þessa 22 ára tímabils er því óviðunandi að mati stofnunarinnar. Því til staðfestingar vitna ég til kynningar stofnunarinnar á nýliðun en þar segir: "Nýliðun síðustu sex ára er slök, langt undir langtímameðaltali. Engir meðalárgangar, eins og mældust 1997 til 2000, í farvatninu."Ég álít að sú mynd sem stofnunin setti fram til að styðja skoðun sína og fá hljómgrunn fyrir hana sé afar villandi. Beita rauðra ljósa blikkar á henni og gerir þá sem gefst ekki tími til nánari skoðunar skelkaða. Inn í myndina stimplast slök nýliðun sl. sex ára sem bera uppi árgangana 1998 til og með 2003. Þar er líka fullyrt að engir meðalárgangar séu í farvatninu. Slík fullyrðing er út í hött og veit ég ekki hvaða tilgangi hún þjónar. Frekar hefði verið hægt að segja tíðar skyndilokanir að undanförnu og góð aflabrögð benda til þess að sterkir árgangar séu að koma inn í veiðina. Lítum þá til mynda Hafrannsóknastofnunar og myndar sem sýnir sömu tölur frá 1985. "Nýliðun síðustu sex ára er slök, langt undir langtímameðaltali. Engir meðalárgangar, eins og mældust 1997 til 2000, í farvatninu" (Hafró júní 2007). Þegar skoðaður er ferill sem sýnir hlutfall þriggja ára fisks í stofnstærð kemur ýmislegt í ljós. Þær tölur eru unnar upp úr skýrslu Hafrannsóknastofnunar eins og aðrar tölur um meðalþyngd, nýliðun og hrygningarstofn. Það er athyglisvert hversu mikil fylgni er milli þessara stærða eða allt til þess að kemur að síðasta ári, þá myndast öfugt hlutfall, skyndilokunum fjölgar en hlutfall smáfisks minnkar. Freistandi er því að álykta að eitthvað hafi farið úrskeiðis hjá vísindamönnunum, en að sama skapi styrkir fjölgun skyndilokana viðhorf sjómanna um stöðu þorskstofnsins.
Aðeins þrjú ár eftir 1964 yfir meðaltali
Þriðji þátturinn sem ég nefni hér fjallar um hrygningarstofninn. Þar var ekki síður en í nýliðuninni að ýtt var duglega við tilheyrendum Hafrannsóknastofnunar er þeir kynntu skýrslu sína 2. júní sl. Langtímameðaltalið sýndi að frá því farið var að stjórna fiskveiðum með aflakvótum hefur hrygningarstofn ekki náð langtímameðaltali sem er 300 þús. tonn reiknað frá 1955 til 2007. Aðeins þrjú ár eftir 1964 ná að fara yfir meðaltalið. Það er því með ólíkindum að sú tala sé það sem gengið er út frá þegar ástand hrygningarstofnsins er metið.Eins og í nýliðuninni skoðaði ég nútímann og gætti að því hvað hann sýndi. Óumdeilt hrygningarstofninn er miðað við það tímabil í vexti og 2005 var hann í sögulegu hámarki á þessu 22 ára tímabili, 228 þúsund tonn. Það er því óeðlilegt að draga þá ályktun að þar sé slæm staða, heldur gefur stærð hrygningarstofnsins fulla ástæðu til bjartsýni.
Hér á undan hef ég vikið að þáttum í aflaráðgjöf Hafró sem ég er ekki sáttur við. Gagnrýni mín er viðbót við þær skoðanir umbjóðenda minna að ástand þorskstofnsins sé með öðrum hætti en vísindamenn Hafrannsóknastofnunar telja. Ég tel það afar mikilvægt að sjávarútvegsráðherra skipi nefnd til að fara yfir aflaráðgjöf stofnunarinnar auk þess sem hann hefji nýtt togararall sem grundvallað verði á sömu forsendum og það rall sem stofnunin hefur stuðst við undanfarna áratugi. Niðurstöður þess mundu nýtast til að bera saman við það sem lesið var út úr röllum á upphafsárum þess.
Veiðiheimildir í þorski verði þegar auknar
Að lokum ítreka ég skoðun Landssambands smábátaeigenda þar sem því er beint til sjávarútvegsráðherra að auka nú þegar veiðiheimildir í þorski. Ljóst er að margar útgerðir þola ekki skerðinguna auk þess sem hún ógnar fjölmörgum þáttum sjávarútvegsins sem leiða til mikilla vandræða fyrir hinar dreifðu byggðir víðsvegar um landið. 63 þúsund tonn eru einfaldlega of mikið, ekki síst þegar ákvörðunin er einvörðungu byggð á skoðunum vísindamanna Hafrannsóknastofnunar sem eru, eins og hér hefur verið sýnt, langt í frá að vera yfir gagnrýni hafnar."
Í hnotskurn
» Ég álít að sú mynd sem stofnunin setti fram til að styðja skoðun sína og fá hljómgrunn fyrir hana sé afar villandi.» Hrygningarstofninn er miðaður við það tímabil í vexti og 2005 var hann í sögulegu hámarki á þessu 22 ára tímabili, 228 þúsund tonn.
» Ég tel það afar mikilvægt að sjávarútvegsráðherra skipi nefnd til að fara yfir aflaráðgjöf stofnunarinnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.