þri. 25.9.2007
Yfirlýst markmið um stjórn fiskveiða.
Sjávarútvegsráðherra ber ábyrgð á stjórn fiskveiða og framkvæmd laga og reglugerða er lúta að þeim.
Hafrannsóknastofnunin er miðstöð vísindalegra rannsókna á nytjastofnum og ber ábyrgð á ráðgjöf um árlegan hámarksafla úr þeim stofnum sem veiðar eru takmarkaðar á.
Fiskistofa annast eftirlit og framkvæmd laga um stjórn fiskveiða og Landhelgisgæslan löggæslu á miðunum.
Í eftirfarandi köflum er fjallað um lög og reglur er varða stjórn fiskveiða hérlendis og hið vísindalega starf sem lagt er til grundvallar veiðiráðgjöfinni. Þá er fjallað um leyfilegan heildarafla og lýst eftirliti og viðurlögum við brotum. Þessari umfjöllun er á engan hátt ætlað að vera tæmandi eða lögformleg lýsing á hinu umfangsmikla og ítarlega kerfi fiskveiðistjórnar hérlendis heldur aðeins að veita innsýn í það.
Yfirlýst markmið laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.
Tekið er fram að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögunum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
Heimildir: http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/
Hér liggur það ljóst fyrir hverjir eru ábyrgir .
Sjávarútvegsráðherra ber ábyrgð á stjórn fiskveiða og framkvæmd laga og reglugerðar er lúta að þeim.
Hvernig hefur stjórn fiskveiða tekist? Svarið er hverjum þeim augljóst sem sjávarbyggðirnar heimsækja, þar er allt í rjúkandi rústum meira og minna. Yfirlýst markmið laga nr.38/1990 um stjórn fiskveiða hefur algjörlega brugðist. Ég óska eftir því að ráðherra axli sína ábyrgð.
Hver ber ábyrgð á því að örfáir einstaklingar skuli geta veðsett sameign þjóðarinnar í topp án þess að hafa yfir henni eignarrétt?
Hafrannsóknastofnunin ber ábyrgð á ráðgjöf um árlegan hámarksafla úr þeim stofnum sem veiðar eru takmarkaðar á. Það liggur alveg ljóst fyrir að ráðgjöf Hafró hefur algjörlega brugðist. Ég óska eftir því að Hafró axli sína ábyrgð og viðurkenni opinberlega á mannamáli að aðferðarfræðin sem notuð er gefur kolranga mynd af ástandi helstu nytjastofna okkar svo sem þorskstofnsins.
Athugasemdir
Þetta er nákvæmlega einhvern vegin svona Bjarni minn. En gaman væri ef einhver getur bent á þann sem ber skýlaust ábyrgðina að veðsetningunni á sameign þjóðarinnar.
Hallgrímur Guðmundsson, 26.9.2007 kl. 14:32
Ekkert af upphaflegu markmiðunum náðist. Þarf þá ekki að fara fram endurskoðun?
Jóhann Elíasson, 26.9.2007 kl. 21:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.