fim. 13.9.2007
Fullyrðingar um stækkun gráhvalastofnsins dregnar í efa.
Fréttin er hérna fyrir neðan.
"Ný rannsókn sem byggð er á erfðafræðirannsóknum á gráhvölum í Austur-Kyrrahafi bendir til þess að fullyrðingar um stækkun gráhvalastofnsins þar eigi ekki við rök að styðjast og að stöðvun veiða hafi því ekki haft þau áhrif sem talið hefur verið. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Samkvæmt því sem fram kemur í tímaritinu PNAS benda erfðafræðirannsóknirnar til þess að mun meira hafi verið um gráhvali á þessum slóðum áður en veiðum var hætt en hingað til hefur verið talið. Þykir það draga mjög úr trúverðugleika fullyrðinga um að gráhvölum á svæðinu hafi fjölgað um 20.000 frá því veiðum var hætt.
Segja vísindamennirnir, sem unnu að rannsókninni, að mun líklegra sé að rekja megi breytingar á stofnstæð gráhvalsins á þessum slóðum til breytinga á fæðuframboði sem rekja megi til loftslagsbreytinga en hvalveiða. Fyrr á þessu ári var greint frá því að hvalir á svæðinu bæru merki vannæringar.
Ég held að þegar um er að ræða vísbendingar um umfangsmiklar breytingar á stofnstærð, hungur og vannæringu þurfum við að huga að langtíma loftslagsbreytingum á fæðuöflunarsvæðunum, segir Liz Alter sérfræðingur við Stanford háskóla í Bandaríkjunum.
Talið er að gráhvalir (sandlægjur) hafi orðið útdauðar í Atlantshafi á sautjándu öld. Gráhvalastofnar lifa enn í Austur og Vestur-Kyrrahafi en vesturstofninn sem lifir austur af ströndum Rússlands er nú talinn í útrýmingarhættu og er sú þróun m.a. rakin til olíuborana og fiskveiða á svæðinu".
Að sjálfsögðu kemur það vísindunum á óvart að stöðvun veiða skili ekki tilætluðum árangri. Þegar það er alls ekki inn í formúlunum að til þess að byggja upp fiskistofna eða hvalastofna þarf að vera nægt fæðuframboð. Það er stórmerkilegt að það skuli enginn af þessum spekingum átta sig á því að það er algjörlega röng stefna að friðun skili árangri. Og enn merkilegra er það að það er búið að reyna þessa aðferð með vægast sagt mjög döprum árangri í að mér finnst allt of langan tíma. En samt skal haldið áfram og friðað meira, þrátt fyrir að staðreyndirnar öskri framan í þessa svo kallaða vísindamenn, fiskurinn er horaður og vöxtur hans í sögulegu lágmarki, hvalirnir horaðir og samkvæmt fréttinni ber á vannæringu. En vitleysunni virðist engin takmörkum sett, núna er það að sjálfsögðu loftslagsbreytingar sem er orsakavaldurinn. Er ekkert til sem heitir jafnvægi í náttúrunni hjá þessum mönnum? Er það ekki talin röskun á jafnvægi náttúrunnar þegar stöðvaðar eru veiðar á hinum og þessum tegundum?
Fullyrðingar um stækkun gráhvalastofnsins dregnar í efa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.