Upphaflegur tilgangur kvótakerfisins.

Kvótakerfið sem nú hefur verið notað síðan 1984 er að ganga sér til húðar. Þetta stjórnunarkerfi var sett á til þess að vernda þorsk gegn meintri ofveiði, tímabundið í eitt ár. Hvort þorskstofninn hafi þá verið í hættu vegna ofveiði er álitamál og alls ósannað. Hvort tókst að vernda þorsk gegn meintri ofveiði er spurning um skilgreiningu, en það er staðreynd er að að þorskafli er nú árið 1999 talsvert minni en þegar kerfinu var komið á 1984, en þorskaflinn árið 1983 var 300 þúsund tonn. Það hefur sem sagt tekist ágætlega að draga úr veiði á þorski.

Tilgangurinn með veiðistjórnuninni 1984 var að draga úr veiði til þess að byggja stofninn upp svo unnt yrði að veiða meira seinna, en gjarnan var haldið fram að jafnstöðuafli þorsks við Ísland gæti verið 500 þúsund tonn á ári. Kerfið hefur ekki orðið til þess að þessi afli hafi náðst, þvert á móti hefur sífellt verið að minnka. Þar á ofan hefur það haft í för með sér ýmsar hliðarverkanir sem höfundar þess sáu ekki fyrir í upphafi og kerfið er orðið svo flókið að yfirsýn þess er orðin ómöguleg. Sífellt er verið að stoppa í göt eins og það er kallað, en við það opnast ný göt, enda flíkin orðin slitin. Víst er að menn sáu ekki þróunina fyrir þegar kerfinu var komið á.

Afli nokkurra fisktegunda

Hér má sjá afla nokkurra botnfisktegunda frá árinu 1989. Þorskaflinn sést sem rauð lína og aflatölur eru gefnar upp með rauðum tölum vinstra megin (tonn x 1000). Allir stofnar hafa verið á niðurleið síðan þá, þorskurinn hefur þokast aðeins upp á við. Afli annarra tegunda en þorsks er sýndur hægra megin (svartar tölur). Það kallast nú "uppbygging stofnsins". Enn er langt í land að aflinn verði sá sem hann var 1990 þegar uppbyggingin var að hefjast fyrir alvöru með niðurskurði.

En það er ekki aðeins að þorskaflinn hafi minnkað: Afli flestra annarra botnfisktegunda hefur einnig verið að minnka undarnfarinn áratug. Því er von að menn hiksti aðeins þegar talað er að við séum með besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heiminum. Má vera, ef markmiðið er að halda alltaf sömu arðsemi með minnkandi afla, heimsmetið verður væntanlega að halda tekjunum þegar aflinn er orðinn enginn. Þá erum við á réttri leið.

Ekkert betra til?

Ráðamenn vilja halda dauðahaldi í núverandi kerfi og nota gjarnan þá röksemd að ekki sé annað betra til, enginn hafi sett fram aðrar tillögur þrátt fyrir að margar hafi reyndar komið fram. Flestar tillögur sem fram hafa komið eru byggðar á aflamarki og því í raun ekki annað en útfærslur á núverandi kerfi (byggðakvóti, uppboð aflaheimilda o.s. frv.). Þörf er nýhugsunar ef á að búa til nýtt kerfi, fara á byrjunarreit, hugsa upp á nýtt, án þess að vera sífellt með núverandi kerfi á bakinu. Þá verður að skilgreina markmið og notast við forsendur um nýtingu fiskstofna sem eru líklegri til að gefa meiri afrakstur en þær en þær sem eru uppi í dag.

Fram til þessa hafa verið ráðandi vísindi (hugmyndir um samspil veiða og fiskstofna) sem ekki hafa staðist dóm reynslunnar. Þær hafa í stuttu máli byggst á þeirri hugmyndafræði að ef beðið væri með að veiða fiskinn þar til hann yrði stærri, fengist meiri afli. Á það var bent 1984 að slíkar hugmyndir, sem lagðar voru til grundvallar kerfinu þá, -væru rangar, en ekki var tekið tillit til ábendinganna. Þorskur hafði þá horast árin á undan og gagnrýnin var þá sú að ekki væri hægt að friða fisk ef næg fæða væri ekki fyrir hendi, en því var vísað á bug af Hafrannsóknastofnun. Gríðarleg orka og fé hefur farið í að verja hinar röngu forsendur í tímans rás.

Markmið fiskveiðistjórnar

Markmið veiðistjórnunar má m.a. skilgreina þannig:

  • Hámarka afrakstur fiskstofna til langs tíma
  • Hámarka arðsemi veiðanna
  • Hámarka arðsemi þjóðarbúsins
  • Stuðla að jafnvægi í byggð landsins

Þegar kerfið var sett á fannst mönnum eðlilegt að takmarka aflann með því að setja hámark á leyfilegan afla. Á þeim tíma voru menn "vanir" því að tala um afla, meiri eða minni og sú hugsun var allsráðandi að með því að stjórna því sem veitt var eitt árið, væri unnt að hafa áhrif á afraksturinn árið eftir. Menn sáu ekki fyrir þær breytingar sem urðu við að fara að stjórna aflanum sem tekinn var úr sjónum í stað þess að hafa stjórnað veiðidögunum, sókninni:

Frá því að hámarka aflann þá daga sem veitt var, selja hvern ugga til að skapa tekjur, þá borgaði sig nú að vera útsmoginn, velja úr dýrasta fiskinn og selja hann, en kasta verðminni afla. Það á ekki að þurfa að útskýra að grundvallarmunur er á þessu tvennu:

Sóknarmark hámarkar nýtingu þess afla sem kemur á dekk, aflamark hámarkar verðmæti þess afla sem kemur í land.

Gallar aflamarkskerfis eru eftirfarandi:

1. Besti fiskurinn veiddur.

Gæði, og þar með verðmæti einstaklinga sömu tegundar eru misjöfn. Má þar nefna holdafar, stærð, lit, sníkjudýrabyrði o. s. frv. Þegar leyft er að veiða ákveðið magn reyna menn að hámarka arðinn með því að ná sem verðmætustu vörunni. Þetta er gert á tvennan hátt:

a) Með því að sækja ekki á slóð þar sem von er á lélegum fiski eða nota einungis veiðarfæri sem velja úr stærsta og dýrasta fiskinn. Dæmi: Bátar á sunnanverðum Vestfjörðum sækja ekki í Breiðafjörð vegna þess að fiskurinn þar er ormaveikur og hentar illa i vinnslu og hann gefur lágt verð. Þetta veldur því að svæði og þar með undirstofnar verða vannýttir. Margir nota einungis 9-11 tommu net á vetrarvertíð.

b) Með því að henda verðlitlum fiski. Þættirnir a) og b) valda því að mat á stærð fiskstofna lækkar og ef beitt er aflareglu, minnkar kvótinn. Það ýtir undir að koma með enn dýrari fisk að landi. Þetta gildir óháð því hvaða stefna (hugmyndafræði) er i gildi um hvernig fara eigi að því að hámarka afrakstur fiskstofna.

Engu máli skiptir í leikreglum kvótakerfisins hvar (eða hvenær) kvótinn er tekinn. Þó það sé vitað að undir svokallaða úthafsrækju flokkast margir stofnar á mismunandi veiðisvæðum, þá eru þeir með sameiginlegan aflakvóta. Í ljósi þessa er ekki hægt að halda því fram að veiðistjórn úthafsrækju sé byggð á líffræðilegum forsendum, því unnt er að ofnýta einn stofn en vannýta annan. Engum myndi t.d. detta í hug að hafa sameiginlegan rækjukvóta fyrir Ísagjarðardjúp og Arnarfjörð þótt í raun sé verið að nota samsvarandi vinnubrögð við stjórn veiða á úthafsrækju. Um staðbundnum botnfisk gildir það sama. Ef mönnum sýndist svo, og aflabrögð byðu upp á það, gætu þeir tekið allan sinn kvóta á Vestfjarðamiðum en skilið öll önnur mið eftir óveidd og ónýtt.

Aflamark er einungis nothæft á einsleitar veiðar, t.d. loðnuveiðar. Þá er ekkert á ferðinni nema sá fiskur sem veiða má, en óhæft þegar um blandaðar veiðar (botnfiskveiðar) er að ræða, því þá verða menn að henda því sem kvóti er ekki fyrir. Þó hefur þetta reynst illa við síldveiðar þó ekkert veiddist í nótina nema síld. Sú var tíðin þegar auðvelt var að ná kvótanum að mikið var um smásíld á miðunum. Þá slepptu menn niður köstum sem voru mest megnið smásíld, köstuðu og köstuðu þar til þeir fengu stærri og verðmeiri síld. Megnið af síldinni sem sleppt var drapst eftir að búið að þrengja að henni í nótinni, enda fóru sögur af úldinni síld á botninum í fjörðunum fyrir austan.

2. Félagslegir ókostir

Hér hefur einungis verið fjallað um helstu líffræðilega ókosti aflamarkskerfis, en ótaldir eru aðrir ókostir af félagslegum toga sem tengjast framseljanlegum kvóta m.a. tilfærslu afla milli staða og tilheyrandi byggðavanda og flutningi fjár út úr greininni þegar menn labba sig út úr greininni eins og sagt er. Ekki verður hér farið nánar út í þennan ókost.

Athyglisvert er að aldrei hefur verið talað um það í kvótakerfinu, að t.d. helmingur veiðileyfanna (kvótans) væri sameiginlegur. Þannig mætti hugsa sér að helmingi loðnukvótans væri úthlutað á skip, en hinn helmingurinn væri frjáls öllum, boðinn upp, úthlutað til nýrra aðila skv. umsóknum t.d., eða veiddur í samkeppni, allt eftir eðli veiðanna.

Heimildir:http://fiski.com/

Hver er svo niðurstaðan? Í dag er úthlutað 130.000 tonnum af þorski fyrir kvótaárið 2007/2008. Mjög magnaður árangur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Minnstu ekki á það ógrátandi hvernig er búið að fara með þennan atvinnuveg. Ef allur sannleikurinn kæmi í ljós í sambandi við allt svindlið,brottkastið og ranglega skírðan fisk myndi margur gapa.

Hallgrímur Guðmundsson, 17.8.2007 kl. 01:02

2 Smámynd: Einar Vignir Einarsson

Sælir Strákar

Ég er svo hjartanlega sammála ykkur.  Þó ég sé framsóknarmaður er kvótakerfið algjört monster sem er löngu sprungið og komið í vitleysu.  Ef framsalið hefði ekki komið á væri öðruvísi komið fyrir sjávarútvegnum í dag.  Eins ef ekki mætti veðsetja sindandi fisk í sjónum.  Ekki spurning.

Einar Vignir Einarsson, 17.8.2007 kl. 23:48

3 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Það er nú einu sinni svo með öll mannanna verk að þau verða ekki fullkomin í fyrstu gerð og stöðugt þar að lagfæra og breyta.  Eina undantekningin frá þessu er hið íslenska kvótakerfi, alltof margir telja að það hafi verið búið til algerlega gallalaust frá byrjun og þótt gerðar hafi verið á því einhverjar breytingar hafa þær orðið til að gera þetta enn vitlausara en áður.  Við erum í dag að vernda og reyna að byggja upp þorskstofn sem nýtast mun Færeyingum og Grænlendingum í framtíðinni og við sitjum eftir með sárt ennið.

Jakob Falur Kristinsson, 20.8.2007 kl. 14:06

4 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Þarna hittirðu naglann á höfuðið Jakob, reyndar eru það ekki bara Færeyingar og Grænlendingar sem njóta afrakstursins að heimsku Hafró og stjórnvalda. Evrópusambandið er með fiskveiðisamning við Grænland þannig að þeir fá sinn skerf og Norðmenn einnig. Þetta er alveg frábært, fyrst er farið í þorskastríð til að losna við veiðar erlendra skipa á þorskstofninum okkar, síðan er tekin upp ein sú fáránlegasta stjórn á veiðunum sem um getur í mannkynssögunni. Og útkoman er einföld, sjávarbyggðirnar að verða ein rjúkandi rúst, fiskurinn í sjónum veðsettur í botn, þorskurinn flýr eins hratt og hann getur synt, til annarra landa áður en hann er sveltur í hel. Stjórnvöld monta sig síðan af öllu saman við þá sem nógu heimskir og fáfróðir eru til að hlusta á ruglið.

Hallgrímur Guðmundsson, 21.8.2007 kl. 10:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband