Bera bankarnir enga ábyrgð?


 Fyrir nokkru ruddust bankarnir inn á fasteignamarkaðinn með miklum látum og buðu allt að því 100% íbúðalán og endurfjármögnun á eldri lánum. Samhliða sífellt hækkandi húsnæðisverði í Reykjavík má ætla að ýmsir hafi spennt bogann ansi hátt.

Í fréttum RÚV nýlega kom fram að sífellt fleiri leita nú til ráðgjafastofu um fjármál heimilanna vegna erfiðleika við að greiða af húsnæðislánum. Samkvæmt viðtali við starfsmann stofunnar hafa margir jafnvel aldrei getað greitt af húsnæðislánum og eru einnig í miklum erfiðleikum með að greiða af yfirdráttarlánum. Og hvað með þá sem ná að halda í horfinu, en verða svo fyrir því að missa vinnuna eða veikjast? Hvað gera bankarnir þá?

Íbúðalánasjóður býður fólki sem lendir í greiðsluerfiðleikum vegna veikinda eða atvinnumissis upp á samninga, skuldbreytingu vanskila, frestun á greiðslum og lengingu lána. Ekkert svona er til staðar formlega hjá bönkunum, allavega ekki þeim íslensku. Í Frakklandi bjóða nánast allir bankar viðskiptavinum sínum upp á aðstoð ef þeir lenda í greiðsluerfiðleikum. Ef viðkomandi verður fyrir áfalli á borð við að missa vinnuna eða maki deyr þá eru bankar skyldugir skv. lögum að aðstoða.

Ef staðan er mjög slæm og hætta er á gjaldþroti þá er hægt að leita aðstoðar hjá Commission départementale de surendettement hjá Seðlabanka Frakklands og þeir semja við kröfuhafa fyrir þína hönd. Ef ekki nást samningar, sjá þeir um málshöfðun til að frysta greiðslur eða stoppa kröfuhafa frá því að eignast íbúðarhúsnæði skuldarans. Á móti geta þeir gert þá kröfu að húsnæðið sé selt til að greiða skuldir, en aðeins ef tryggt er að skuldarinn geti fundið annað hentugra íbúðarhúsnæði. En hér er ekkert svona til staðar. Það er ekkert til staðar til að vernda skuldara fyrir bönkum. Löggjafinn virðist hafa haft fyrst og fremst áhyggjur af hinum stórhættulegu skuldurum og hefur m.a. tryggt að bankar fá hverja einustu krónu til baka á núvirði með verðtryggingunni auk hæstu mögulegu bankavaxta. Stefnan hefur því verið belti og axlabönd fyrir bankana, á meðan almenningur er skilinn eftir með buxurnar á hælunum. Svo segjumst við ekki skilja neitt í því hvernig bankarnir fara að því að hagnast um milljarð á viku eða meira.

Höfundur Eygló Harðardóttir.

Varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.

Heimildir: Vísir.is/umræðan


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Þetta er vitræn og afar þörf umræða, hér þarf virkilega að gera átak og þó fyrr hefði verið. Kannski Björgvin fái vit í þetta mál, ekki kæmi það á óvart að hann gerði atlögu að þessu glæpaverki.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 12.8.2007 kl. 19:01

2 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Það er svo sannarlega satt Hafsteinn á þessu verður að taka. Ég rakst á þessa grein á vísir.is og varð eiginlega að birta hana hér. Einhvern veginn virka bankarnir eins og skipulögð glæpastarfssemi í sumum tilfellum með ríkisvernd.

Hafi höfundurinn miklar þakkir fyrir.

Hallgrímur Guðmundsson, 12.8.2007 kl. 20:52

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Nei bankarnir eru algjörlega "stikkfríir" af öllu sem þeir gera.  Þeir taka almenning og stjórnvöld reglulega í r........ og við látum allt yfir okkur ganga.  Það koma reglulega upp "einhver" mál þar sem bankarnir virðast hafa farið rangt að en það er aldrei neitt aðhafst.  Menn (aðallega SA og aðrir einkavæðingarpostular) koma fram og segja að Íbúðalánasjóður kyndi undir verðbólgu með starfsemi sinni en aldrei er talað um hlut viðskiptabankanna varðandi húsnæðisverð og verðbólgu. Hvar eru opinberar eftirlitsstofnanir þegar bankarnir eiga í hlut?

Jóhann Elíasson, 13.8.2007 kl. 09:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband