Fiskifræðin á villigötum!!!!!

Hin fiskifræðilega ráðgjöf hefur beðið skipbrot

Birt í 'Fiskerbladet' sem gefið er út í Danmörku

Hin fiskifræðilega ráðgjöf um nýtingu fiskstofna hefur hefur beðið skipbrot í bókstaflegri merkingu. Eftir 20 ára faglega ráðgjöf eru flestir þorskstofnar við N-Atlantshaf við að hrynja og fiskiskipaflotinn hefur markvisst verið eyðilagður að hemja sókn.

Hið eina sem blómstrar í fiskveiðigeiranum er eftirlit með veiðum, rannsóknir og niðurrif fiskiskipa.

Ráðgjöfin hefur einkum falist í að draga úr afla til að geta veitt meira seinna. Aflinn hefur minnkað en enn er verið að bíða eftir þessu "seinna". Þegar bent er á að taka verði tillit til fæðu og vaxtarskilyrða, að náttúruleg afföll séu óþekkt og breytileg eftir aldri fiska og tímabilum, ekki sé unnt að telja fiskinn í sjónum o.s. frv, þá afneita hinir ríkisreknu fiskifræðingar því með öllu og halda áfram að reyna að byggja upp stofna með gömlu aðferðinni eins og ekkert hafi í skorist. Þeir líta á fiskana sem óvirka statista sem ekki hafi áhrif á umhverfi sitt. Þessir menn hafa greinilega ekki fylgst með þeim miklu rannsóknir sem fram hafa farið fram í stöðuvötnum á hvernig fiskarnir hafa áhrif á sína eigin fæðukeðju og hvernig beita megi veiðistjórnun til að hafa áhrif á gæði neysluvatns t.d. Allri gagnrýni er sópað út af borðinu og þeir sem eru með aðfinnslur eru lagðir í einelti.

Þegar ég kynnti á ráðstefnu í Kilkeel í N-Írlandi rannsóknir mínar í Írska hafinu, milli Englands og Írlands, kom á daginn að "einhverjir" höfðu hringt í forsvarsmenn margra sjómannasamtaka og ráðlagt þeim að vera ekkert að mæta á ráðstefnuna. Einnig áttum við í erfiðleikum með að finna einhvern til að kynna málstað Alþjóða hafrannsóknaráðsins og svara fyrir ráðleggingar þess. Í Aberdeen mættu ekki fiskifræðingar ríkisins á fyrirlestur um mínar rannsóknir og aðrar leiðir í fiskveiðistjórn þótt þeim væri sérstaklega boðið (www.fiski.com/english/eindex.html).

Alþjóða hafrannsóknaráðið var upphaflega stofnað til að hafa samvinnu um haf og fiskirannsóknir milli landanna við Atlantshafið. Nú hef ég fengið á tilfinninguna að ráðið sé hagsmunasamtök þar sem aðalatriðið sé að standa vörð um svonefnda "viðurkennda fiskifræði" með öllum tiltækum ráðum.

Uppruna núverandi ráðgjafar má rekja til þess tíma þegar fiskveiðar voru óheftar og allir gátu veitt þar sem þeim sýndist, að mestu takmarkalaust. Öllum þjóðum var frjálst að veiða í Atlantshafi eins og þeim sýndist.

Englendingar og Franskmenn veiddu við Ísland á sextándu öld, þeir héldu einnig snemma á Nýfundnalandsmið, og togarar voru orðin algengir um aldamótin 1900. Árið 1925 veiddust 330 þúsund tonn af þorski við Ísland og 520 þúsund tonn 1933. Þorskaflinn nú er um 200 þúsund tonn og sagt er nú að miðin séu ofveidd!

Hér áður fyrr var ekki talað um ofveiði eða stofnhrun. Þá voru bara góð og slæm ár, góð veiði eða slæm.Vandamálin og fiskveiðikreppan kom seinna.

Í gamla daga var veitt eins mikið og unnt var. Trollmöskvar voru litlir og fiskur sem ekki var söluvara fór fyrir borð. Sjómenn sögðu iðulega frá röstum af dauðum fiski þar sem togararnir höfðu verið að veiða. Á sjötta áratugnum veiddu m.a.s íslenskir togarar þorsk til bræðslu, og þótti í góðu lagi. Ekki þýddi að hlífa fiskinum til þess að sjá svo á eftir honum í Englendingana sögðu menn.

Fiskifræðingar sögðu þá að þetta væru óábyrgar veiðar. Ef einungis væri unnt að bíða aðeins með að veiða fiskinn og leyfa honum að stækka fengist miklu meiri afli. Stjórnmálamennirnir gátu ekki farið eftir þessum ráðum því yfirráð fiskimiðanna voru ekki í þeirra höndum, ekki væri unnt að stjórna útlendingunum. Smám saman varð þetta aðal röksemdin fyrir að færa út landhelgina. Með stærri landhelgi yrði unnt að reka útlendinga af miðunum, koma í veg fyrir rányrkjuna og fara að nýta miðin af skynsemi. Landhelgin var færð út smám saman og varð 200 sjómílur1976.

Ráð fiskifræðinganna var einfalt: Vernda smáfisk og lofa honum að stækka. Við það myndi stórum fiski fjölga og heildaraflinn ykist. Jafnframt því sem stofnarnir stækkuðu myndi afli á sóknareiningu vaxa og unnt væri að minnka flotann og minnka tilkostnað.

Þessi áætlun fiskifræðinganna hlaut að hafa byggst á því að fiskafæða væri ekki fullnýtt því stofnarnir væru of litlir. Á Íslandi var trollmöskvi stækkaður úr 120 mm 1976 í 155 mm 1977. Ætla mætti að fylgst hefði veri náið með vexti fiskanna eftir að þessi aðgerð náði fram að ganga. En það var ekki gert, gleymdist víst alveg í ákafanum. Afleiðing þessara ráðstafana var að 3- ára fiskur hvarf að mestu úr afla togara, aflinn óx til að byrja með en jafnframt fór að draga úr vexti einstakra fiska, stofninn snarminnkaði og 1983 varð aflinn sá minnsti frá stríðslokum, 300 þúsund tonn. Menn fylltust skelfingu og kvótakerfið var sett á 1984 til að vernda þorskstofninn, - tímabundið.

Niðurstaða tilraunarinnar hafði verið að ekki hafði verið fæðugrundvöllur fyrir stækkun stofnsins. Aðrir fiskifræðingar, með reynslu af nýtingu stöðuvatna, bentu á þetta því þeir könnuðust mjög vel við þetta vandamál. Þeirra reynsla var að það þyrfti að stunda grimma veiði til að koma í veg fyrir offjölgun og viðhalda þannig vaxtarhraða. En fræðingarnir á hinu stóra Hafi töldu sig vita betur og höfðu ráðin að engu - hafið var svo stórt sögðu þeir.

Ekkert hefur enn breyst. Fiskifræðingar hafsins hafa enn ekki gert sér grein fyrir mikilvægi góðs vaxtar fyrir velgengni og viðgang fiskstofnanna. Þeir hafa enn aðeins eitt ráð: Draga úr sókn í þeirri von að stofnarnir nái sér. Árangurinn er alltaf sá sami: Dregið er úr veiði og stofnarnir minnka, þá ráðleggja þeir frekari samdrátt og stofnarnir halda áfram að minnka. Þeir taka fyrir einn stofninn af öðrum - með sama árangri, stofnarnir dragast saman. Nú sem stendur eru flestir stofnar við N-Atlantshaf í gjörgæslu. Á erlendu máli heitir þetta "Cod Saving Plan".

Færeyingar sögðu þessari stefnu stríð á hendur. Þeir lögðu niður aflakvótakerfi sem komið hafði verið á 1994 og settu á fót hóp vísra manna, sem komu alls staðar að úr fiskveiðigeiranum, m.a. vísindamenn, og bjuggu til nýtt kerfi til stjórnunar fiskveiða 1996. Það byggðist á sóknarstýringu, hver skipaflokkur fékk ákveðinn dagafjölda til sinna veiða og máttu veiða allt sem þeir vildu og gátu, ekkert hámark var á afla, hvorki í heildina né hjá einstökum skipum. Þetta tryggði að aflinn endurspeglaði ástand fiskistofnanna og varð til þess að engu var hent og hverri tegund var landað undir réttu nafni. Aflaskýrslur urðu þannig áreiðanlegri.

Þar sem sóknarkerfi endurspeglar nokkuð vel ástand stofnanna á hverjum tíma kom fljótlega í ljós að aflinn og þróun stofnanna var ekki í takt við spár fiskifræðinga, sem urðu alltaf hræddir þegar aflinn fór fram úr þeirra spám og ráðlögðu niðurskurð í dagafjölda. Ein af röksemdum þeirra var að afköst skipanna væru stöðugt að aukast, 5% á ári, og því þyrfti alltaf að fækka dögum. Fram til 2000 hafði dögum verið fækkað um 20% af þessum ástæðum. Þá sögðu færeysk stjórnvöld stopp og vildu meina að frekari niðurskurður myndi eyðileggja kerfið.

Dagafjöldinn hefur verið óbreyttur sl. 4 ár. Á hverju ári hefur Alþjóða hafrannsóknaráðið lagt til um 25% samdrátt í fjölda fiskidaga því ráðið taldi að veiðiálagið væri of mikið. En þeir sem ákveða dagafjöldann, stjórnmálamenn og greinin sjálf, hafa ekki látið undan þeim þrýstingi. Niðurstaða þessarar tilraunar er athyglisverð. Þrátt fyrir óbreytt og stöðugt veiðiálag frá árinu 2000 hafa stofnar ufsa, ýsu og þorsks hafa vaxið á tímabilinu. Samanlagður afli úr stofnunum náði sögulegu hámarki 2002 en hefur aðeins minnkað síðan. Þorskstofninn varð of stór - miðað við fæðuframboð, þorskurinn horaðist og einstaklingsvöxtur stöðvaðist að mestu. Það var greinilegt árið 2003 að stofninn fór minnkandi - vegna hungurs og lagði ég til því til að fjölga veiðidögum um 10-15% til að hjálpa þorskinum að komast út úr kreppunni. Ekki var farið eftir þessu, þótti víst of róttækt.

Þegar Alþjóða hafrannsóknaráðið hafði loks mælt minnkun þorskstofnsins 2004 lögðu þeir til að þorskveiðar yrðu stöðvaðar, eða veiðiálag minnkað strax um 66% til þess að "byggja stofninn upp" sem fyrst. Þeir vildu kenna allt of miklu veiðiálagi um rýrnun stofnsins.

Í júní sl. lagði enn til aukningu fiskidaga , taldi að þar sem sóknin hafði ekki náð að hamla á móti stækkun stofnanna þá væri hún of lítil. Fiskidaganefndin, sem samanstendur af fulltrúum hagsmunaaðila og er ráðherra til ráðgjafar, lagði til óbreyttan dagafjölda en félög útgerðarmanna og sjómanna vildu ná til baka þeim 20% veiðidaga sem teknir hafa verið af þeim síðan kerfið var sett á. Niðurstaða þingsins var að fækka fiskidögum um 1%, vera þægir til málamynda.

Þrátt fyrir þennan málamynda niðurskurð má segja að enn einu sinni hafi ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins verið hundsuð.

Tafla 1.

 

Tafla 1. Hér er ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins, afli og þróun þorsk-, ýsu- og ufsastofna við Færeyjar. Með einni undantekningu, ýsu árið 2000, fer aflinn langt fram úr ráðgjöfinni. Þrátt fyrir það vaxa stofnarnir. Minnkun þorskstofnsins stafar að mínu mati af lélegum vexti vegna fæðuskorts. En Alþjóða hafrannsóknaráðið kennir ofveiði um. Hvernig er hægt að halda því fram að veiðin sé of mikill þegar flotinn hefur ekki megnað að halda aftur af aukningu stofnsins? (Tölur úr nýjustu skýrslu Alþjóða hafrannsóknaráðsins)

Þorskafli við Færeyjar frá 1904. Aflinn einkennist af reglulegum sveiflum og sjá má hvernig hann féll í seinna stríði þegar einungis heimamenn stunduðu veiðarnar. Þrátt fyrir friðun í stríðinu verður afli í toppum eftir stríð aldrei meiri en hann var fyrir stríð. Ekki er að sjá að friðunin hafi "byggt upp" stofninn, minnkun sóknar leiddi aðeins til aflataps. Sveiflurnar fara að skýrast og dýpka eftir 1960, einmitt þegar farið er að friða meira með útfærslu landhelgi og lokunum svæða. Ofveiði virðist ekki möguleg. Undir fullu veiðiálagi rífur aflinn (stofninn) sig upp úr lægðunum, fellur svo aftur, rís, o.s.frv. Veiðarnar virðast lítil áhrif hafa á þróunina. Ég setti fram þá tilgátu á ráðstefnu í Bergen 1998 að það væri þorskurinn sjálfur sem stýrði sveiflunum - með því að éta og hafa þannig áhrif á sitt eigið fæðuframboð.

Heimildir: http://fiski.com/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband