Vernd vesælla Þorska.

Björn S. Stefánsson skrifar um þorskaflamark og fiskveiðiráðgjöf

Björn S. Stefánsson
Björn S. Stefánsson
Björn S. Stefánsson skrifar um þorskaflamark og fiskveiðiráðgjöf: "Það er svo í lífríkinu, að dýrastofn, sem býr við vesöld, verður enn vesælli, ef menn hlífast frekar en áður við að veiða hann."

STEFÁN Þórarinsson rifjaði upp í sunnudagsblaðinu 8. júlí, hvernig stjórn sjávarútvegsráðuneytisins á aflamarki þorsks hófst 1984. Þá starfaði hann í ráðuneytinu. Um það leyti, sem stjórn þorskaflamarks hófst, hélt Líffræðifélag Íslands málþing um ástand þorskstofnsins. Þar var því haldið fram, að hugmyndir Hafrannsóknastofnunar um uppbyggingu þorskstofnsins væru vitlausar, þar sem þær tækju ekki tillit til fæðuskilyrða, helsta áhrifavalds um viðgang dýrastofns. Meðal þeirra, sem héldu þessu þar fram í fyrirlestri, voru Jón Gunnar Ottósson, nú forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, og Jón Kristjánsson fiskifræðingur. Þeir Jón Kristjánsson og Tumi Tómasson, nú forstöðumaður Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna, lögðu um leið fyrir fréttamenn samantekt á gagnrýni á stefnu í fiskveiðum (www.fiski.com/skrar/gagnr84.html). Nú orðið er Jóni einum gjarna eignaður sá málstaður, sem þarna kom fram, þar á meðal af Stefáni Þórarinssyni í áðurnefndu viðtali.

Fleiri atkvæðamikilla líffræðinga verður að geta, sem hafa opinberlega haft sjónarmið það, sem þeir Jónar og Tumi settu fram 1984. Fyrst er að nefna Jón Jónsson, forstöðumann Hafrannsóknastofnunar, sem bendir á í grein um mikilvægi fæðuskilyrða í Ægi 1964 (Ofveiði eða kjörveiði), hvernig of lítil veiði getur verið skaðleg, sbr. athugasemd mína í Náttúrufræðingnum 2001 (Ofveiði, of lítil veiði eða kjörveiði). Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur hélt því fram í Morgunblaðinu 1992, að mikilvægt væri að meta fæðuskilyrði og fann að því, að svo var ekki gert í stofnun, sem hann kynnti sér og hafði verið talin til fyrirmyndar, sbr. grein mína í Morgunblaðinu sama ár (Villuljós Hafrannsóknastofnunar). Landssamband útvegsmanna hefur þrátt fyrir það ekki fundið að því, að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um aflamark er ætíð án tillits til fæðuskilyrða, og hefur Kristján þó starfað þar alla tíð síðan þá. Raunar fór hann til starfa hjá Landssambandinu með það í huga að kenna slíkt; áður en til þess kom, hafði hann kennt mér nokkuð í þeim efnum, þar sem við vorum á sama vinnustað. Greinin um Villuljós er um sögu ráðandi skoðana, þar sem kemur fram, að þeir þrír Jónar, sem hér eru nefndir, flytja mál, sem var almennt viðurkennt, og er grundvöllur líffræði ofan sjávar og neðan, og um það, hvernig menn villtust. Loks nefni ég líffræðinginn Össur Skarphéðinsson, sem lofaði fiskveiðiráðgjöf Jóns Kristjánssonar í umræðum á Alþingi í fyrravetur.

Það kemur fram í viðtalinu við Stefán Þórarinsson, að hann hefur lagt á ráðin um víða um heim, en í aflamarksstjórn er aldrei tekið tillit til fæðuskilyrða. Það er reyndar ekkert óvenjulegt, að þróunaraðstoð sé vitlaust hugsuð frá grunni. Og nú vill hann bæta um betur hér á landi með tillögum um tilflutning á aflamarki og að draga úr veiðiálagi á fiskistofn, sem þegar er vesæll, vitaskuld af því, að fiskarnir eru of margir um takmarkaða næringu. Stefán reynist því ekki kunna annað, þegar hann kemur til viðtals við Morgunblaðið, en það, sem menn villtust til að halda 1984.

"Hann er léttur" hafði Morgunblaðið eftir framkvæmdastjóra Landssambands útvegsmanna um þorskinn, þegar Hafrannsóknastofnun kynnti ráðgjöf sína í vor. Það er svo í lífríkinu, að dýrastofn, sem býr við vesöld ("er léttur"), verður enn vesælli, ef menn hlífast frekar en áður við að veiða hann. Þegar þess er gætt, að að Landssambandinu standa öflug fyrirtæki með velmenntaða starfsmenn, er merkilegt, að eigendur fyrirtækjanna horfi upp á það, án þess að finna að, að ekki sé beitt aðferðum aðgerðagreiningar að meta þá stöðu, sem er ("hann er léttur"), á þá ráðstöfun að takmarka veiði enn frekar. Verkefnið til greiningar væri þetta: Dýrastofn hefur verið veiddur að vissu marki, aflamarki. Dýrin eru nú vannærð og vesæl og ekki girnilegt hráefni til matar. Til hvers mundi það leiða, ef enn yrði dregið úr veiði? Mundi stofninn braggast og stækka, eins og menn vilja?

Hafrannsóknastofnun verður fyrir miklu aðkasti, en hún haggast ekki. Allmargir starfsmenn hennar hafa reyndar sagt upp starfi undanfarið. Þeir, sem halda fram gagnrýni á rök og ráð stofnunarinnar, verða líka fyrir aðkasti og óþægindum. Sumir haggast, óttast aðkast og sitja hjá. Ég nefndi hér að ofan nokkra atkvæðamikla menn. Það er ekki að sjá, þar sem helst mætti vænta, að neitt kveði að þeim í þessum efnum.

Höfundur er dr.scient. og er í Vísindafélagi Norðmanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband